Vilja leggja hald á verðmæti

Flóttamenn í Þýskalandi ganga um borð í lest á leið …
Flóttamenn í Þýskalandi ganga um borð í lest á leið til Kaupmannahafnar. AFP

Stjórn­völd í Dan­mörku hafa verið ófeim­in við að aug­lýsa þá staðreynd að flótta­menn eru minna en vel­komn­ir en nú hafa þau til skoðunar nýtt frum­varp sem veit­ir yf­ir­völd­um heim­ild til að leggja hald á verðmæti sem flótta­menn kunna að hafa í fór­um sín­um við kom­una til lands­ins.

„Það seg­ir margt um danska stefnu­mót­un að sum­ir eru ekki viss­ir um hvort þetta er gabb eða ekki,“ hef­ur Washingt­on Post eft­ir Zachary Whyte, sem rann­sak­ar mál­efni hæl­is­leit­enda við Kaup­manna­hafn­ar­há­skóla.

En þetta er alls ekk­ert gabb.

„Frum­varpið, sem var lagt fram 10. des­em­ber 2015 veit­ir dönsk­um yf­ir­völd­um vald til að leita í fatnaði og far­angri hæl­is­leit­enda, og annarra flótta­manna sem hafa ekki dval­ar­leyfi í Dan­mörku, með það að mark­miði að finna eign­ir sem kunna að mæta kostnaði,“ seg­ir í tölvu­pósti ráðuneyt­is aðlög­un­ar­mála til Washingt­on Post.

Fátt virðist standa í vegi fyr­ir því að frum­varpið verði að lög­um og þá tek­ur það gildi í fe­brú­ar á næsta ári.

Sam­kvæmt ráðuneyt­inu danska myndu lög­in aðeins ná til afar verðmætra eigna, ekki arm­bandsúra og farsíma svo dæmi séu tek­in. Þá verður ekki lagt hald á per­sónu­lega muni með til­finn­inga­legt gildi, nema verðmæti þeirra sé um­tals­vert.

Það vek­ur at­hygli að ráðamenn virðast túlka lög­in á ólík­an hátt en dóms­málaráðherr­ann sagði í sjón­varpi að þau myndu ná til hæl­is­leit­enda með „tösk­ur full­ar af demönt­um“, en Danski þjóðarflokk­ur­inn var fljót­ur að árétta að lög­in næðu einnig til verðminni eigna.

Gagn­rýn­end­ur segja til­lög­urn­ar grimmd­ar­leg­ar og hafa sum­ir vísað til „eigna­upp­töku“ nas­ista í seinni heimstyrj­öld­inni og spurt hvort stjórn­völd hygg­ist fjar­lægja gull­fyll­ing­ar úr tönn­um flótta­fólks­ins.

Sér­fræðing­ar segja að til­gang­ur lag­anna sé fyrst og fremst að senda skila­boð og út­skýr­ing­ar aðlög­un­ar­ráðuneyt­is­ins danska virðast styðja þann mál­flutn­ing. Í tölvu­pósti ráðuneyt­is­ins sagði m.a. að Dan­mörk hefði lagt sitt af mörk­um hvað varðaði mót­töku flótta­fólks en of marg­ir flótta­menn „settu þrýst­ing á danskt sam­fé­lag og gerðu erfiðara að tryggja vel­heppnaða aðlög­un þeirra sem koma til Dan­merk­ur.“

Ítar­leg­ar frétt­ir um málið má finna hjá Washingt­on Post og Politiken.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert