Stjórnvöld í Danmörku hafa verið ófeimin við að auglýsa þá staðreynd að flóttamenn eru minna en velkomnir en nú hafa þau til skoðunar nýtt frumvarp sem veitir yfirvöldum heimild til að leggja hald á verðmæti sem flóttamenn kunna að hafa í fórum sínum við komuna til landsins.
„Það segir margt um danska stefnumótun að sumir eru ekki vissir um hvort þetta er gabb eða ekki,“ hefur Washington Post eftir Zachary Whyte, sem rannsakar málefni hælisleitenda við Kaupmannahafnarháskóla.
En þetta er alls ekkert gabb.
„Frumvarpið, sem var lagt fram 10. desember 2015 veitir dönskum yfirvöldum vald til að leita í fatnaði og farangri hælisleitenda, og annarra flóttamanna sem hafa ekki dvalarleyfi í Danmörku, með það að markmiði að finna eignir sem kunna að mæta kostnaði,“ segir í tölvupósti ráðuneytis aðlögunarmála til Washington Post.
Fátt virðist standa í vegi fyrir því að frumvarpið verði að lögum og þá tekur það gildi í febrúar á næsta ári.
Samkvæmt ráðuneytinu danska myndu lögin aðeins ná til afar verðmætra eigna, ekki armbandsúra og farsíma svo dæmi séu tekin. Þá verður ekki lagt hald á persónulega muni með tilfinningalegt gildi, nema verðmæti þeirra sé umtalsvert.
Það vekur athygli að ráðamenn virðast túlka lögin á ólíkan hátt en dómsmálaráðherrann sagði í sjónvarpi að þau myndu ná til hælisleitenda með „töskur fullar af demöntum“, en Danski þjóðarflokkurinn var fljótur að árétta að lögin næðu einnig til verðminni eigna.
Gagnrýnendur segja tillögurnar grimmdarlegar og hafa sumir vísað til „eignaupptöku“ nasista í seinni heimstyrjöldinni og spurt hvort stjórnvöld hyggist fjarlægja gullfyllingar úr tönnum flóttafólksins.
Sérfræðingar segja að tilgangur laganna sé fyrst og fremst að senda skilaboð og útskýringar aðlögunarráðuneytisins danska virðast styðja þann málflutning. Í tölvupósti ráðuneytisins sagði m.a. að Danmörk hefði lagt sitt af mörkum hvað varðaði móttöku flóttafólks en of margir flóttamenn „settu þrýsting á danskt samfélag og gerðu erfiðara að tryggja velheppnaða aðlögun þeirra sem koma til Danmerkur.“
Ítarlegar fréttir um málið má finna hjá Washington Post og Politiken.