Tveir fangar voru teknir af lífi í Japan í dag og er annar þeirra sá fyrsti sem er tekinn af lífi eftir að hafa verið dæmdur til dauða af kviðdóm. Alls hafa 14 verið teknir af lífi í Japan frá því Shinzo Abe, forsætisráðherra, komst til valda seint á árinu 2012.
Sumitoshi Tsuda, 63 ára, var hengdur fyrir að hafa myrt þrjá í borginni Kawasaki í maí 2009. Það sama ár voru gerðar breytingar á dómskerfinu í landinu og vald almennings aukið, meðal annars með því að taka þátt í kviðdómi. Tsuda var dæmdur til dauða af kviðdómi. Alls hafa síðan þá 26 verið dæmdir til dauða í Japan af kviðdómi.
Kazuyuki Wakabayashi var síðan tekinn af lífi í dag en hann var dæmdur til dauða fyrir að hafa myrt mæðgur árið 2006 í Iwate.
Japan og Bandaríkin eru einu stóru iðnríkin í heiminum sem enn beita dauðarefsingum. Flestir Japanir styðja dauðarefsingar en alls eru 127 fangar á dauðadeildum landsins.