Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt samhljóða „leiðarvísi“ að friðarferli fyrir Sýrland. Um er að ræða fágæta samstöðu innan ráðsins um átök sem hafa kostað fleiri en 250.000 manns lífið.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði eftir atkvæðagreiðslu um málið að samþykktin fæli í sér skýr skilaboð til allra viðkomandi að nú væri tími til kominn að binda enda á blóðbaðið í landinu og leggja grunn að ríkisstjórn sem hin langþjáða þjóð gæti fylkst að baki.
Tillagan um leiðarvísinn var samþykkt eftir að Rússar og Bandaríkjamenn komust að samkomulagi um orðalag. Veldin hafa afar ólíka sýn á hvað þarf að gerast í Sýrlandi og Kerry dró ekkert undan varðandi ágreining um framtíð Bashar al-Assad, forseta landsins.
Í ályktun ráðsins er ekki fjallað um forsetann.
Kerry sagði ljóst að hindranir væru í veginum og að alþjóðasamfélagið væri ekki á einu máli um örlög Assad. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði að ályktunin fæli í sér viðbrögð vegna utanaðkomandi tilrauna til að þvinga lausn upp á Sýrlendinga, m.a. hvað varðaði forsetann.
Utanríkisráðherra Frakklands, Laurent Fabius, sagði að viðræðum milli sýrlenskra stjórnvalda og stjórnarandstæðinga myndi aðeins ljúka farsællega ef trygging fengist fyrir því að Assad færi frá völdum.
„Hvernig getur þessi maður sameinað þjóð sem hann hefur að að hluta slátrað? Sú hugmynd að hann bjóði sig aftur fram í kosningum er óásættanleg.“
Í ályktuninni er talað um að Sameinuðu þjóðirnar leggi fram tillögur um eftirlit með vopnahléi innan við mánuði eftir að ályktunin tekur gildi. Þá er gert ráð fyrir að viðræður milli ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstæðinga hefjist í janúar.
Philip Hammond, utanríkisráðherra Bretlands, sagði um að ræða mikilsvert skref í átt að því að binda enda á borgarastyrjöldina í Sýrlandi en viðurkenndi um leið að það væri langur vegur framundan.
Bretar hafa sagt að Assad geti setið áfram á forsetastóli á meðan stjórnarskipti fara fram, en hann sé ekki hluti af langtímalausn. Hammond sagði að fyrir þessu væru bæði siðferðilegar og praktískar ástæður.
Ítarlega frétt um málið er að finna hjá Guardian.