Hillir undir breytingar á Spáni

Forsætisráðherrann Mariano Rajoy nýtur takmarkaðra vinsælda en hann hefur leitast …
Forsætisráðherrann Mariano Rajoy nýtur takmarkaðra vinsælda en hann hefur leitast við að telja Spánverjum trú um að þeir séu öruggir í hans höndum. AFP

Spánverjar gengu til þingkosninga í dag en afar tvísýnt er um úrslit. Síðustu þrjá áratugi hafa Þjóðarflokkur forsætisráðherrans Mariano Rajoy og Sósíalistaflokkurinn skipst á að stjórna landinu, en berjast nú um atkvæði við nýjar fylkingar með nýjar áherslur.

Nýju flokkarnir eru miðjuflokkurinn Ciudadanos og Podemos, sem er nokkurs konar systurflokkur hins gríska Syriza. Leiðtogi Ciudadanos, Albert Rivera, sagði í dag að Spánn væri á barmi nýrra tíma, en skoðanakannanir benda til þess að Þjóðarflokkurinn muni tapa hreinum þingmeirihluta í kosningunum í dag.

Það er ekki öll von úti fyrir Rajoy, þar sem allt bendir til þess að Þjóðarflokkurinn verði áfram stærsti flokkurinn á þinginu, en ef hann tapar hreinum meirihluta neyðist hann til að mynda samsteypustjórn, eða minnihlutastjórn.

Það er öllu óljósara hvaða flokkur fær næst flesta þingmenn, þar sem Ciudadanos og Podemos gætu skotið Sósíalistaflokknum ref fyrir rass, sem myndi færa þeim mikið vald á hinu pólitíska sviði.

Pablo Iglesias, leiðtogi Podemos, var kátur á kjörstað.
Pablo Iglesias, leiðtogi Podemos, var kátur á kjörstað. AFP

Þegar forsætisráðherrann skilaði atkvæði sínu í dag hvatti hann Spánverja til að fjölmenna á kjörstað. Klukkan 18 að staðartíma stóð kosningaþátttaka í 58,36% en um er að ræða 0,71% aukningu frá kosningunum 2011.

Gríðarlegt atvinnuleysi, ójöfnuður, spilling og möglegur aðskilnaður Katalóníu eru meðal þeirra mála sem kosið er um.

„Þjóðarflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn eru orðnir værukærir og hafa gleymt okkur. Við erum hér til að gefa nýju flokkunum tækifæri,“ sagði vörubílstjórinn Francisco Perez, 53 ára, við AFP. Hann kaus Podemos.

Að söng Ana Salazar hjá ráðgjafafyrirtækinu Red Line má rekja upphaf hins pólitíska skjálfta á Spáni til þess þegar Podemos steig fram á sviðið 2014 í kjölfar niðurskurðar og spillingamála. Stuttu síðar fylgdi Ciudadanos, sem var stofnaður 2006 í Katalóníu, en fór nú að blanda sér í landsmálapólitíkina.

„Nú er þetta það gamla gegn hinu nýja,“ segir Salazar.

Miklar líkur eru á því að mynduð verði samsteypustjórn í …
Miklar líkur eru á því að mynduð verði samsteypustjórn í fyrsta sinn í áratugi. AFP

Rajoy hefur leitast við að draga þá mynd að þjóðin sé örugg í hans höndum; höndum sem drógu landið frá bjargrún fjármálakreppunnar. Og eftir áralanga kreppu spá stjórnvöld 3,3% hagvexti á þesu ári.

Atvinnuleysi stendur hins vegar í 21% og andstæðingar Rajoy hafa verið duglegir að benda á hinn mikla ójöfnuð sem þeir segja að sé fylgifiskur aðhaldsaðgerða ríkistjórnarinnar.

Pedro Sanchez, leiðtogi Sósíalista, hefur heitið því að endurvekja réttindi verkamanna og innflytjenda, og Rivera hefur lofað „skynsamlegum breytingum“. Það er hins vegar Podemos sem hefur sótt hvað mest í sig veðrið síðustu misseri og skoðanakannanir benda til þess að eftir kosningarnar verði flokkurinn mögulega stærsta aflið á vinstri væng spænskra stjórnmála.

Silverio Ares, sem er 62 ára og atvinnulaus, fagnar þróun mála og því að ef til vill hillir undir endalok tveggjaflokka kerfisins.

Albert Rivera ræðir við blaðamenn í Barcelona.
Albert Rivera ræðir við blaðamenn í Barcelona. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert