Frambjóðendurnir sem tóku þátt í kappræðum Demókrataflokksins tókust hart á um málefni eins og Sýrland, reglur um vopnaeign og hryðjuverkaógnina í nótt. Bernie Sanders bað Hillary Clinton afsökunar á að starfsmenn framboðs síns hefðu skoðað kjósendagögn frá framboði hennar í vikunni.
Kappræðurnar á milli Clinton, Sanders og Martin O'Malley, fv. ríkisstjóra Maryland, fóru fram í New Hampshire í gærkvöldi en öll sækjast þau eftir að verða forsetaframbjóðandi demókrata í kosningunum á næsta ári.
Vikan fyrir kappræðurnar, sem eru þær þriðju frá því að forvalið hófst, einkenndist af hneykslismáli sem varð til þess að Sanders var bannað að nota gagnagrunn flokksins um lykilkjósendur. Starfsmenn framboðs hans uppgötvuðu galla í gagnagrunninum sem gerði þeim kleift að skoða gögn um kjósendur sem framboð Clintons höfðu útbúið.
„Þetta er ekki sú tegund af kosningabaráttu sem við stöndum í,“ sagði Sanders í kappræðunum í nótt þegar hann bað Clinton afsökunar. Hann hefur rekið þrjá starfsmenn framboðsins vegna málsins.
Um Sýrland sagði Clinton að Bandaríkin ættu áfram að reyna að koma Bashar al-Assad forseta frá völdum. Sanders sagði hins vegar að fyrst ættu menn að einbeita sér að því að uppræta Ríki íslams.
„Það er einfalt mál að losa sig við einræðisherra en maður verður að hugsast um hvað gerist daginn eftir,“ sagði öldungadeildarþingmaðurinn frá Vermont.
Bæði fóru þau hörðum orðum um Donald Trump sem mælist með mest fylgi frambjóðenda í forvali repúblikana en hann hefur meðal annars lýst yfir að banna ætti öllum múslimum að koma til Bandaríkjanna. Clinton kallaði hann meðal annars mesta liðssafnara Ríkis íslams sem notaði fordóma og rosta til að æsa fólk upp.
Fréttaritari breska ríkisútvarpsins BBC segir að allir frambjóðendurnir þrír hafi komist vel út úr kappræðunum en Clinton hafi gert nóg til að halda forskoti sínu á Sanders og O'Malley. Helsti ágreiningurinn á milli þeirra sé um hvernig eigi að taka á málum í Sýrlandi og Ríki íslams.