Liðsmenn Ríkis íslams gætu hafa stolið tugum þúsunda auðra vegabréfa sem þeir gætu hugsanlega notað til að smygla sér til Evrópu sem flóttamenn, Þessu heldur þýska blaðið Welt am Sonntag fram og hefur eftir heimildum innan vestrænna leyniþjónusta.
Heimildir blaðsins herma að vegabréfunum hefði getað verið stolið á þeim landsvæðum sem hryðjuverkasamtökin stjórna í Sýrlandi, Írak og Líbíu. Þá hafi samtökin þegar byrjað að græða fé á vegabréfunum með því að selja þau á svörtum markaði fyrir allt að 1.600 dollara hvert.
Tveir árásarmannanna í París í nóvember sem ekki hefur enn verið borið kennsl á voru með fölsuð sýrlensk vegabréf sem þeir notuðu til að komast til Evrópu. Yfirvöld í Evrópuríkjum eru sögð hafa ítrekað varað við hættunni á þessu.
Fabrice Leggeri, yfirmaður Frontex, landamærastofnunar Evrópu, segir að vegabréf sem gefin eru út í stríðshrjáðum ríkjum eins og Sýrlandi þar sem óreiða ríkir þýði að ekki sé hægt að ábyrgjast að pappírar sem líta út fyrir að vera ekta séu í raun gefnir út af opinberum aðilum.