„Jafnvel þó ekki sé beðið um aðstoð“

Ljósmynd/Frontex

Forystumenn ríkja Evrópusambandsins lýstu á fundi sínum fyrir helgi yfir stuðningi við tillögu framkvæmdastjórnar sambandsins þess efnis að sett verði á fót landamæralögregla og strandgæsla á vegum þess. Tillögur þess efnis voru kynntar af framkvæmdastjórninni á þriðjudaginn en áður hafði þeim verið lekið til fjölmiðla.

Tillagan gengur í stuttu máli út á að það að komið verði á fór sjálfstæðri landamæralögreglu og strandgæslu undir stjórn Evrópusambandsins sem hefði yfir eigin mannafla og tækjabúnaði að ráða. Þar á meðal allt að 1.500 landamæravörðum, strandgæsluskipum og drónum. Framkvæmdastjórnin fengi valdheimildir til þess að senda þessar sveitir til aðildarríkja Schengen-samstarfsins sem liggja að ytri mörkum svæðisins ef hún teldi að ríkin væru ekki að sinna gæslu þar nægjanlega vel. Sú ákvörðun væri ekki háð samþykki ríkjanna og gæti fyrir vikið verið tekin gegn vilja þeirra.

„Þetta mun gera stofnuninni [landamæralögreglu og strandgæslu Evrópusambandsins] mögulegt að grípa strax inn í þegar erfiðar aðstæður eru fyrir hendi með því að senda lögreglusveitir og strandgæslu að ytri mörkunum. [...] Við aðstæður sem krefjast tafarlausra aðgerða verður stofnunin að gera gripið inn í til þess að tryggja að tekið sé á málum á staðnum jafnvel þó ekki sé beðið um aðstoð af hálfu viðkomandi aðildarríkjum eða þegar aðildarríki telur að engin þörf sé á frekari afskiptum,“ segir meðal annars í tillögunni.

Íslensk stjórnvöld höfnuðu hugmyndinni

Fram kemur á fréttavefnum Euobserver.com að tillagan hafi verið samþykkt þrátt fyrir áhyggjur sumra ríkja Evrópusambandsins af því að hún gengi of nærri fullveldi aðildarríkja Schengen-samstarfsins, en þau eru auk 22 af 28 ríkjum sambandsins Ísland, Noregur, Sviss og Liechtenstein. Leiðtogar ríkja Evrópusambandsins hafi viljað senda afgerandi skilaboð um mikilvægi þess að ná aftur stjórn á ytri mörkum Schengen-svæðisins. 

Samþykkt var að ráðherraráð Evrópusambandsins tæki málið til lögformlegrar meðferðar og lyki þeirri vinnu fyrir júnílok á næsta ári. Fréttavefurinn greindi ennfremur frá því í síðustu viku að samkvæmt tillögunni gætu ríki átt yfir höfði sér dómsmál ef þau reyndu að hindra að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sendi landamæraverði til þeirra. Óvíst sé þó um endanlegan stuðning við „innrásar-ákvæðið“ eins og það hafi verið kallað.

Hugmyndir í þessa veruna eru ekki nýjar af nálinni hjá Evrópusambandinu eins og mbl.is hefur fjallað um, en árið 2002 var kallað eftir því að sambandið tæki alfarið yfir stjórn eftirlits á ytri mörkum Schengen-svæðisins sem meðal annars liggja hér á landi. Þrátt fyrir stuðning meðal annars frá Þjóðverjum náði hugmyndin ekki fram að ganga. Íslensk stjórnvöld lögðust gegn hugmyndinni þar sem ekki væri hægt að samþykkja að yfirþjóðleg stofnun tæki yfir landamæragæslu landsins.

Færist smám saman undir yfirstjórn ESB

Greint var frá hugmyndum framkvæmdastjórnarinnar um sjálfstæða landamæralögreglu og strandgæslu Evrópusambandsins í fjölmiðlum á síðasta ári. Þær gerðu ráð fyrir að sambandið tæki yfir eftirlitið á ytri mörkum Schengen-svæðisins í þremur megin skrefum á næstu 15-20 árum. Fyrsta skrefið fæli í sér að ákvarðanir um eftirlitið yrðu teknar í auknum mæli sameiginlega, annað skrefið í því að ákvarðanatakan færðist til Evrópusambandsins samhliða því að komið yrði á landamæralögreglu sambandsins sem gæti gripið inn í við ákveðnar aðstæður.

Þriðja og síðasta skrefið fælist í því að komið yrði á sérstakri stofnun á vegum Evrópusambandsins sem tæki alfarið yfir landamæragæsluna á ytri mörkum Schengen-svæðisins með eigin mannafla og óháð ríkisstjórnum aðildarríkjanna. Þar með færðust allir landamæraverðir sem áður störfuðu á vegum Schengen-ríkjanna undir stjórn Evrópusambandsins og mynduðu landamæralögreglu sambandsins. Tillaga framkvæmdastjórnarinnar nú felur þannig í sér að þessum áformum verði flýtt mjög.

Haft er eftir Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, í frétt Euobserver.com í síðustu viku að að mestu máli skipti að tryggja öryggi ytri landamæra Schengen-svæðisins. Það væri ekki að takast við núverandi aðstæður. Af þeim sökum hafi leiðtogar ríkja sambandsins ákveðið að hraða afgreiðslu málsins. Vísaði hann þar einkum til flóttamannavandans í Evrópu undanfarnar vikur og mánuði en forystumenn Evrópusambandsins hafa ítrekað lýst því yfir að Schengen-samstarfið gæti heyrt sögunni til takist ekki að tryggja ytri landamærin.

Fréttir mbl.is:

Tekur ESB yfir landamæri Íslands?

Landamæragæsla heyri beint undir ESB

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert