„Réttarkerfið hefur brugðist“

Faðir rúmlega tvítugrar stúlku sem var nauðgað svo hrottalega af hópi karlmanna í höfuðborg Indlands fyrir þremur árum að hún lést af völdum áverkanna, segir að réttarkerfið hafi brugðist fjölskyldunni en einn nauðgaranna var látinn laus í gær.

Fjölskyldan fór fram á að lausn nauðgarans yrði tekin fyrir af áfrýjunardómstól en því var hafnað. 

„Hvað get ég sagt? Það eru engin orð sem geta lýst vonbrigðum okkar,“ segir Badrinath Singh, faðir fórnarlambs nauðgaranna, Jyoti Singh, í viðtali við AFP fréttastofuna í dag.

„Við skiljum ekki þessi lög. Það eina sem við vitum er að kerfið brást okkur.“

Um er að ræða yngsta nauðgarann en hann hefur verið í haldi í unglingafangelsi frá því dómar féllu í málinu sem vakti heimsathygli. Þar sem hann var undir lögaldri þegar brotið var framið þá var hann dæmdur til vistunar í þrjú ár að hámarki. Dómurinn féll í ágúst 2013. 

Gríðarleg reiði er yfir lausn hans í indversku samfélagi og hefur honum verið komið í umsjón hjálparsamtaka í þeirri von að hægt verði að vernda hann fyrir árásum almennings. Fjórir af nauðgurunum eru í fangelsi en þeir voru dæmdir til dauða fyrir hópnauðgunina. Þeir hafa allir áfrýjað niðurstöðunni. Sá fimmti lést í fangelsi.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert