Segir Ríki íslams hafa stór áform í Asíu

Reykur rís í fjarska á meðan í forgrunni blaktir fáni …
Reykur rís í fjarska á meðan í forgrunni blaktir fáni hryðjuverkasamtakanna. AFP

Ríkissaksóknari Ástralíu segir engan vafa í sínum hug vera um að Ríki íslams leitist nú við að koma á fót svokölluðu „fjar-kalífadæmi“ í Indónesíu, annað hvort með beinum hætti eða í gegnum samstarfssamtök. Í samtali við dagblaðið The Australian segir saksóknarinn, George Brandis, að samtökin líti á Indónesíu sem góðan jarðveg fyrir fræ þeirra málstaðar.

Greg Fealey, sérfræðingur í íslamisma og indónesískum stjórnmálum, segir aftur á móti í samtali við ástralska útgáfu The Guardian að Indónesíu stafi ekki ógn af samtökunum, jafnvel þó meirihluti þeirra 300 sem flutt hafa úr landi til víga í nafni íslams hafi gengið til liðs við samtökin.

„Ég efast dálítið um þetta,“ segir Fealey. „Flestir fræðimenn sem skoða ítök samtakanna í Suðaustur-Asíu eru ekki sannfærðir um að þau hafi stór áform í Indónesíu.“

Indónesía er fjórða fjölmennasta land heims, á eftir Kína, Indlandi og Bandaríkjunum, en í engu öðru landi búa fleiri múslimar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert