Múslimar bæti ímynd íslams

Rouhani sagði það vera stærstu skyldu múslima að lagfæra ímynd …
Rouhani sagði það vera stærstu skyldu múslima að lagfæra ímynd íslams í augum heimsbyggðarinnar. AFP

Múslim­ar þurfa að sam­ein­ast um að bæta ímynd íslams í aug­um heims­byggðar­inn­ar að mati Hass­an Rou­hani Írans­for­seta. For­set­inn lét orðin falla á ráðstefnu í höfuðborg­inni Tehran í dag, en þar ræddi hann um nei­kvæð viðhorf margra gagn­vart trúnni vegna átaka og hryðju­verka ým­issa sam­taka und­an­far­in ár. Hann sagði ís­lömsk gildi boða frið og ít­rekaði að þau ættu ekk­ert skylt við of­beldi eða árás­ir. „Okk­ar stærsta skylda snýr að því að lag­færa ímynd íslams í aug­um heims­byggðar­inn­ar,“ sagði Rou­hani.

Þá gagn­rýndi hann ríki á borð við Sádi-Ar­ab­íu fyr­ir að „kaupa vopn af Banda­ríkja­mönn­um og nota þau á múslima“. Þar vísaði hann m.a. til hernaðar rík­is­ins gegn upp­reisn­ar­mönn­um í Jemen fyrr á ár­inu.

Hassan Rouhani
Hass­an Rou­hani AFP

„Hversu marg­ar sprengj­ur og eld­flaug­ar hafið þið keypt af Banda­ríkja­mönn­um í ár?“ spurði Rou­hani. „Ef þið hefðuð frek­ar notað pen­ing­inn í að fæða fá­tæka múslima þyrfti eng­inn að fara svang­ur í hátt­inn í kvöld.“

Hann sagði sárt að horfa upp á unga múslima halda í lang­ar og hættu­leg­ar ferðir til að setj­ast að í ríkj­um þar sem ekki er íslamstrú. Þannig skoraði hann á önn­ur múslima­lönd að sitja ekki aðgerðalaus og horfa upp á of­beldis­öld­urn­ar í Sýr­landi og Írak.

Íranska rík­is­stjórn­in er höll und­ir stjórn Assads Sýr­lands­for­seta og hef­ur lagt til herlið og vopn í bar­átt­unni við upp­reisn­ar­menn, m.a. hryðju­verka­menn rík­is íslams. Þá berj­ast Íran­ir jafn­framt sam­hliða ír­ösku rík­is­stjórn­inni gegn fram­gangi rík­is íslams.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert