Múslimar bæti ímynd íslams

Rouhani sagði það vera stærstu skyldu múslima að lagfæra ímynd …
Rouhani sagði það vera stærstu skyldu múslima að lagfæra ímynd íslams í augum heimsbyggðarinnar. AFP

Múslimar þurfa að sameinast um að bæta ímynd íslams í augum heimsbyggðarinnar að mati Hassan Rouhani Íransforseta. Forsetinn lét orðin falla á ráðstefnu í höfuðborginni Tehran í dag, en þar ræddi hann um neikvæð viðhorf margra gagnvart trúnni vegna átaka og hryðjuverka ýmissa samtaka undanfarin ár. Hann sagði íslömsk gildi boða frið og ítrekaði að þau ættu ekkert skylt við ofbeldi eða árásir. „Okkar stærsta skylda snýr að því að lagfæra ímynd íslams í augum heimsbyggðarinnar,“ sagði Rouhani.

Þá gagnrýndi hann ríki á borð við Sádi-Arabíu fyrir að „kaupa vopn af Bandaríkjamönnum og nota þau á múslima“. Þar vísaði hann m.a. til hernaðar ríkisins gegn uppreisnarmönnum í Jemen fyrr á árinu.

Hassan Rouhani
Hassan Rouhani AFP

„Hversu margar sprengjur og eldflaugar hafið þið keypt af Bandaríkjamönnum í ár?“ spurði Rouhani. „Ef þið hefðuð frekar notað peninginn í að fæða fátæka múslima þyrfti enginn að fara svangur í háttinn í kvöld.“

Hann sagði sárt að horfa upp á unga múslima halda í langar og hættulegar ferðir til að setjast að í ríkjum þar sem ekki er íslamstrú. Þannig skoraði hann á önnur múslimalönd að sitja ekki aðgerðalaus og horfa upp á ofbeldisöldurnar í Sýrlandi og Írak.

Íranska ríkisstjórnin er höll undir stjórn Assads Sýrlandsforseta og hefur lagt til herlið og vopn í baráttunni við uppreisnarmenn, m.a. hryðjuverkamenn ríkis íslams. Þá berjast Íranir jafnframt samhliða írösku ríkisstjórninni gegn framgangi ríkis íslams.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert