Ósáttur við flóttamannasáttmála SÞ

Forsætisráðherra Danmerkur, Lars Løkke Rasmussen, segir að hann muni óska eftir því að flóttamannasáttmáli Sameinuðu þjóðanna verði endurskoðaður á sama tíma og Evrópa takist á við mesta flóttamannavanda síðustu áratuga eða allt frá tímum síðari heimstyrjaldarinnar.

„Ef þetta heldur svona áfram eða versnar... þá mun koma að þeim tímapunkti að við verðum að ræða saman - og Danmörk mun ekki geta gert það ein - að lagfæra leikreglurnar,“ segir Rasmussen í viðtali við TV2 í kvöld.

Lars Løkke Rasmussen er formaður hægri flokksins Venstre en ríkisstjórn landsins, sem er minnihlutastjórn, nýtur stuðnings Danska þjóðarflokksins (DPP) sem berst gegn innflytjendum Hann telur að það sé orðið tímabært að endurskoða sáttmálann sem er frá árinu 1951 á þann veg að það sé útskýrt hver réttur flóttafólks er í því landi sem það kemur fyrst til.

„Ef einhver sækir um skjól frá stríði en hefur búið í tvö eða þrjú ár í Tyrklandi á hann rétt á því að fara til Evrópu og sækja um hæli þar? Eins og það er í dag þá heimila reglurnar fólki að gera það. En við eigum að koma á umræðum um það,“ sagði Rasmussen í viðtalinu í kvöld.

Forsætisráðherrann telur að Evrópusambandið eigi að leiða umræðuna um að þrengja sáttmálann sem varð að lögum aðeins sex árum eftir að seinni heimstyrjöldinni lauk.

Stefna dönsku ríkisstjórnarinnar í málefnum flóttafólks hefur verið harðlega gagnrýnd, meðal annars nýverið vegna fyr­ir­ætl­ana stjórn­valda um að leggja hald á fjár­muni og verðmæti flótta­manna um­fram 3.000 dansk­ar krón­ur.

Skiptir um flokk í mótmælaskyni

Þingið mun greiða atkvæði um frumvarpið í janúar en það þykir um margt minna á nasisma Þýskalands er gull og önnur verðmæti voru tekin af gyðingum á tímum seinni heimstyrjaldarinnar.

Á fyrstu ellefu mánuðum ársins sóttu 18 þúsund manns um hæli í Danmörku en alls búa sex milljónir þar í landi. Á sama tíma sóttu hátt í 190 þúsund manns um hæli í nágrannaríkinu Svíþjóð.

Samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum eru yfir tvær milljónir sýrlenskra flóttamanna í Tyrklandi.

Forsætisráðherra Danmerkur, Lars Løkke Rasmussen
Forsætisráðherra Danmerkur, Lars Løkke Rasmussen AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert