Fátt bendir til þess að fleiri ríki verði aðilar að evrusvæðinu á komandi árum þar sem efnahagserfiðleikar innan svæðisins virðast hafa dregið úr áhuganum á því. Þetta er haft eftir Valdis Dombrovskis, varaforseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og yfirmann peningamála innan hennar í frétt AFP sem byggir á viðtali í þýska dagblaðinu Die Welt.
Fram kemur í fréttinni að áður en Evrópusambandsríki geti tekið upp evruna þurfi það að hafa fara í gegnum ákveðið undirbúningsferli sem sé eins konar biðsalur. Ekkert ríki sé hins vegar í þessum biðsal í dag fyrir utan Danmörku sem hafi sérstaka stöðu í þeim efnum. Danir hafa undanþágu frá evrunni og hafa fellt aðild að henni í þjóðaratkvæðagreiðslum. Samtals eru 19 af 28 ríkjum Evrópusambandsins aðilar að evrusvæðinu.
Haft er eftir Dombrovskis að bæði Búlgaría og Rúmenía hafi þó lýst áhuga á að taka fyrstu skrefin í áttina að því að taka upp evruna. Viðræður um það hefðu einnig farið fram við fyrri ríkisstjórn Póllands. Ný ríkisstjórn landsins hefði hins vegar meiri vara á í þeim efnum. „Upphaflega virtist aðild að evrunni aðlaðandi fyrir ný Evrópusambandsríki en evrukrísan hefur breytt því. Og krísan í Grikklandi enn frekar.“
Síðustu tvö ríkin til að gerast aðilar að evrusvæðinu voru Lettland árið 2014 og Litháen 2015.