Íraska fánanum flaggað í Ramadi

AFP

Íraska borgin Ramadi hefur nú verið frelsuð undan hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams. Íraksher greindi frá þessu í dag.

Talsmaður hersins, Brig Gen Yahya Rasul, sagði herinn hafa unnið „sögulegan“ sigur og í sjónvarpsfréttum mátti sjá íraska hermenn flagga íraska fánanum við stjórnarbyggingar í borginni. Sumir fjölmiðlar halda því þó fram að enn séu einhverjir uppreisnarmenn í borginni.

Liðsmenn Ríkis íslams náðu yfirráðum yfir borginni í maí og ef sigur Írakshers reynist réttur yrði það mikið áfall fyrir hryðjuverkasamtökin en barist hefur verið um borgina í margar vikur.

Í útsendingu íraska ríkissjónvarpsins í dag mátti sjá hermenn í Ramadi fagna sigrinum með því að skjóta úr byssum sínum og slátra kind.

Að sögn talsmanns hersins náðu hermenn að handsama eða drepa fjölmarga vígamenn samtakanna. Vígamennirnir höfðu komið fyrir rúmlega 300 sprengjum við vegi og í byggingum borgarinnar.

Hershöfðingi Írakshers í Anbar, Ismail al-Mahlawi, sagði þó í samtali við AP-fréttastofuna að Ríki íslams stjórnaði enn hlutum borgarinnar.

Ramadi er í um 90 kílómetra fjarlægð frá Bagdad. Barátta Írakshers við að reyna að ná borginni að nýju hófst í byrjun nóvember. Hún var studd loftárásum Bandaríkjahers sem hefur kallað sigur Írakshers í borginni „mikilvægt augnablik fyrir Írak“. Bandaríkjamenn munu aðstoða Íraksher áfram þar til Ramadi verði orðin nógu örugg til að íbúar hennar geti snúið aftur heim.

Francois Hollande, forseti Frakklands, óskaði forsætisráðherra Íraks, Haider al-Abadi, til hamingju með sigurinn í dag en þeir ræddu saman í síma. Hollande sagði sigurinn mjög stórt skref í baráttunni við Ríki íslams. 

Samkvæmt frétt AFP voru um 400 liðsmenn Ríkis íslams eftir í miðborg Ramadi fyrir viku. Ekki liggur fyrir hversu margir voru drepnir og hversu margir sluppu.

Frétt BBC.

Íraskir hermenn flagga fána sínum í Ramadi.
Íraskir hermenn flagga fána sínum í Ramadi. AFP
Hermaður fagnar sigri.
Hermaður fagnar sigri. AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert