Forsætisráðherra Íraks, Haider al-Abadi, er kominn til borgarinnar Ramadi, en í gær lýsti ríkisstjórn hans því yfir að borgin hafi verið frelsuð undan hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams.
Abadi hóf heimsókn sína með því að funda með öryggis- og sveitastjórnarfulltrúum borgarinnar. Vígamenn Ríkis íslams náðu yfirráðum yfir borginni í maí en í gær flögguðu íraski hermenn fána Íraks í borginni. Hefur frelsun Ramadi verið sögð vera stórt skref í baráttunni við hryðjuverkamennina.
Í sjónvarpsávarpi forsætisráðherrans lýsti hann því yfir að bráðlega yrði Ríki íslams útrýmt í Írak. „2016 verður ár stóra sigursins, þegar að Daesh (annað nafn yfir Ríki íslams) í Írak verður tortímt,“ sagði al-Abadi.
„Við erum á leiðinni að frelsa Mosul og það verður banahögg Daesh,“ bætti hann við. Mosul er stærsta borgin í norður Írak og fjölmennasta svæðið þar sem Ríki íslams ræður ríkjum.
Íraski hershöfðinginn Ismail al-Mahlawi, greindi frá því í gær að þó að íraskir hermenn hafi náð yfirráðum yfir miðborginni er stór hluti borgarinnar, um 30%, enn undir stjórn Ríkis íslams.
„Við getum ekki sagt að Ramadi hafi verið frelsuð að fullu,“ sagði hann. „Það eru ennþá hverfi undir stjórn Ríkis íslams.“
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna og Ash Carter, varnarmálaráðherra, hafa báðir fagnað sigri Írakshers í Ramadi og sagt hann mikilvægt skrefi í baráttunni við samtökin.