Saksóknari í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum hefur gefið út ákæru á hendur leikaranum Bill Cosby vegna kynferðisbrots sem hann er sakaður um að hafa framið árið 2004. Þetta er í fyrsta skipti sem Cosby er ákærður en fjöldi kvenna hefur stigið fram og sakað hann um að hafa brotið á sér kynferðislega.
Kevin Steele, aðstoðarsvæðissaksóknari í Montgomery-sýslu, segir að brot Cosby sé alvarlegt en hann er ákærður fyrir grófa kynferðislega árás. Cosby verður dreginn fyrir dóm síðar í dag.
Fyrrverandi starfsmaður Temple-háskóla í Fíladelfíu sakar Cosby um að hafa ráðist á sig á heimili hans í nágrenni borgarinnar árið 2004. Saksóknarinnar segir að ný sönnunargögn hafi komið fram í sumar sem hafi leitt til þess að ákæran var gefin út.
„Umrætt kvöld hvatti herra Cosby hana til að taka pillur sem hann lét hana fá og að fá sér vín. Áhrif þess gerðu hana ófæra um að hreyfa sig eða að bregðast við þreifingum hans og hann framdi grófa kynferðisárás gegn henni,“ sagði Steele.
Fleiri en fimmtíu konur hafa sakað Cosby um að hafa brotið gegn sér en hann kærði sjö þeirra fyrir ærumeiðingar fyrr í þessum mánuði. Þær höfðu kært hann fyrir kynferðisbrotin í desember árið 2014.