Danir taka upp landamæraeftirlit

Forsætisráðherra Danmerkur, Lars Løkke Rasmussen, greindi frá því á blaðamannafundi áðan að Danir myndu hefja landamæraeftirlit á landamærum Þýskalands í því skyni að reyna að stöðva flóttamannastrauminn til landsins. Svíar hófu landamæraeftirlit í dag á Eyrarsundsbrúnni. 

„Þegar önnur norræn ríki loka landamærum sínum þá getur það haft gríðarlegar afleiðingar í för með sér fyrir Danmörku,“ segir Rasmussen og vísar þar til ákvörðunar Svía. Á blaðamannafundi í Kaupmannahöfn í morgun sagði hann að þetta gæti leitt til fjölgunar hælisleitenda. <p>

Landamæraeftirlitið hófst á hádegi og mun standa yfir í tíu daga. Eftir það verður heimilt að framlengja því um 20 daga. Aðeins liðu tólf tímar frá því eftirlitið hófst á landamærum Svíþjóðar þar til Rasmussen kynnti eftirlitið á landamærum Þýskalands. 

„Þetta er stórt skref sem ætti að skoða í ljósi þess alvarlega vanda sem fylgir fjölgun föru- og flóttafólks til Evrópu. þetta er sennilega stærsta og um leið flóknasti vandi sem við höfum upplifað á þessari öld,“ sagði Rassmussen á blaðamannafundinum.

Ekki verður um sambærilegt eftirlit að ræða og Svíar hafa tekið upp heldur verður um tilviljanakennt eftirlit að ræða. Það þýðir að það verða ekki allir beðnir um að framvísa skilríkjum. Að sögn Rassmussens greindi hann kanslara Þýskalands, Angelu Merkel frá þessari ákvörðun í morgun. 

Héraðsstjóri Slésvíkur-Holstein, Torsten Albig, segist harma þessa ákvörðun danskra yfirvalda enda geti þetta haft alvarlegar afleiðingar á góð samskipti á landamærum Þýskalands og Danmerkur. 

Martin Schaefer, talsmaður þýska utanríkisráðuneytisins óttast að þetta setji Schengen landamærasamstarfið í hættu enda sé frjálst flæði fólks eitt helsta atriðið sem ríki Evrópusambandsins hafa sammælst um, segir hann. 

„Schengen er mikilvægt en í hættu,“ sagði Schaefer þegar hann var spurður út í skoðun sína á ákvörðun Dana um að taka upp eftirlit á landamærum Þýskalands.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert