Herðir reglur um skotvopnaeign

Frá blaðamannafundinum í dag.
Frá blaðamannafundinum í dag. AFP

Barack Obama forseti Bandaríkjanna hyggst ráðast í aðgerðir til að takast á við byssuofbeldi í landinu. Þetta tilkynnti forsetinn í kvöld en samkvæmt Reuters kveður forsetinn aðgerðirnar vera vel innan síns valdaramma og ekki ganga gegn réttindum borgara til að bera vopn, en líklegt má þykja að andstæðingar hans muni halda öðru fram fyrir rétti.

Obama ræddi við fjölmiðla á skrifstofu sinni og sagði að hinar nýju aðgerðir yrðu afhjúpaðar á næstu dögum. Í frétt Reuters segir að Obama sé að vekja upp pólitískt gjörningaveður með því að leggja til slíkar aðgerðir án aðkomu Bandaríkjaþings. Aðgerðirnar séu líklegar til að endurskilgreina hvað það þýðir að selja skotvopn og koma á auknu eftirliti með því hverjir fá að kaupa byssur. Repúblíkanar segja Obama vera að misnota vald sitt.

„Góðu fréttirnar eru...þetta eru ekki aðeins meðmæli sem eru vel innan lagalegs valds míns og framkvæmdavaldsins, heldur eru þau einnig studd af yfirgnæfandi meirihluta Bandarísku þjóðarinnar, þar með talið skotvopnaeigendum,“ sagði Obama á fundi með dómsmálaráðherranum Lorettu Lynch og öðrum sérfræðingum sem komu að aðgerðaáætluninni.

Barack Obama og Loretta Lynch ræða við blaðamenn.
Barack Obama og Loretta Lynch ræða við blaðamenn. AFP

Skotvopnaeign er erfitt viðfangsefni innan bandarískra stjórnmála. Rétturinn til skotvopnaeignar er stjórnarskrárvarinn og þrýstihópar skotvopnaframleiðenda hafa gríðarlegt vald yfir stjórnmálamönnum. Bandaríkjaþing hefur ekki samþykkt stórfelldar lagabreytingar um skotvopn frá því á tíunda áratug síðustu aldar.

Obama sagði aðgerðirnar ekki myndu koma í veg fyrir allar fjöldaskotárásir eða ofbeldisglæpi en að í þeim fælist möguleikar á að bjarga mannslífum. Samkvæmt AFP deyja að meðaltali 30 þúsund manns í Bandaríkjunum ár hvert af völdum skotvopna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert