„Stríðssnáðinn“ er breskur drengur

Isa Dare talar um dauða villitrúarmanna í myndbandinu.
Isa Dare talar um dauða villitrúarmanna í myndbandinu.

Ungi drengurinn sem birtist í nýjasta aftöku myndbandi Ríkis Íslams er Isa Dare, sonur Grace „Khadija“ Dare frá Lewisham í London. Þetta hefur afi drengsins staðfest. Í myndbandinu segir drengurinn að villitrúarmenn verði drepnir. Hann er klæddur í hermannafatnað í felulitum og ber klút með merki samtakanna á höfði sér.

Frétt mbl.is Hver er maðurinn á bakvið röddina?

Í júlí birti Grace mynd af syni sínum þar sem hann hélt á AK-47 riffli sem hann virtist rétt lofta.

Afi drengsins, leigubílstjórinn Henry Dare, staðfesti að um dótturson sinn væri að ræða í samtali við The Telegraph. Miðillinn hefur hingað til kallað barnið „jihadi-junior“ sem þýða má lauslega sem „stríðssnáðann“

„Ég var hissa þegar ég sá myndina. Þetta er án efa hann. Að sjálfsögðu hef ég áhyggjur en ég get ekkert gert núna,“ sagði Henry.

„Ég er ekki reiður – ég hefði aldrei búist við þessu. Ég vona bara að einhver sé að reyna að koma þeim aftur til baka.“

Mynd sem Grace Dare birti af syni sínum Isa Dare, …
Mynd sem Grace Dare birti af syni sínum Isa Dare, á Twitter í sumar. Skjáskot af Twitter

Dare fjölskyldan er kristin og af nígerískum uppruna. Henry segir dóttur sína hafa gengið í rómversk-kaþólskan skóla og verið kristna þar til hún snerist til íslamstrúar. Fólk í moskunni sem hún sótti hafi svo haft áhrif á hana en lögregla telur Grace hafa verið snúið til öfga í gegnum veraldarvefinn. Í kjölfarið hafi hún farið að sækja Íslam-miðstöð Lewisham þar sem talið er að Michael Adeboaljo og Michael Adebowale, morðingjar Lee Rigby hafi sótt þjónustu. Grace er talin tengjast morðinu en Rigby var breskur hermaður sem tekinn var af lífi í Bretlandi.

Móðir Grace, Victoria, segir dóttur sína hafa breytt fyrsta nafni sínu í Khadija eftir að hún tók upp íslamstrú. Í fyrra sagði Victoria við fjölmiðla að hún kallaði dóttur sína enn Grace og að hún vildi fá hana aftur í líf sitt. „Hún er eina barnið sem ég á og djöfullinn tók hana í burtu.“

Grace fór til Sýrlands árið 2012 og giftist Svía sem þekktur er sem Abu Bakr en talið er að hann hafi látist í átökum. Hún hefur meðal annars notað samfélagsmiðla til að hæðast að afhöfðun bandaríska blaðamannsins James Foley og til að tilkynna að hún vilji vera fyrsta breska konan til að myrða fanga samtakanna. Hún hefur birst í heimildarmyndum þar sem hún segist sakna ruslfæðis og kínversks skyndibita en að hún muni aldrei snúa aftur heim. Auk Isa á hún yngri son, Abdur Rahman.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert