Innan við eitt hundrað ferðalöngum var meinað að koma til Svíþjóðar á fyrsta sólarhringnum frá því nýjar reglur tóku gildi á landamærum landsins. Allir þeir sem koma yfir Eyrarsundsbrúna frá Danmörku þurfa nú að framvísa skilríkjum.
Í gærkvöldi höfðu 10 þúsund ferðamenn farið um eftirlitsstöðina á Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn þaðan sem lestir til Svíþjóðar fara eftir breytingarnar.
Þeir sem var synjað um að fara um borð í lestirnar voru í flestum tilvikum með persónuskilríki sem danska járnbrautarfyrirtækið DSB taldi ekki gild.
Sögur eru um að í einhverjum tilvikum hafi einhver starfsmaður við landamæraeftirlitið synjað fólki um að fara um borð í lestina en síðan hafi sá næsti leyft viðkomandi að fara um borð. Til að mynda hafi franskir námsmenn í Svíþjóð lent í vandræðum auk fleiri sem eru með dvalarleyfi í Svíþjóð. Einn sænskur blaðamaður lenti í vandræðum með að komast yfir landamærin þar sem landamæravörður neitaði að taka blaðamannapassa hans gildan sem ferðaskilríki.
Ítalskur ferðamaður segir í viðtali við Göteborgs-posten að hann hafi hætt við ferðina til Svíþjóðar eftir að ekki var tekið mark á skilríkjum hans. Þess í stað ætlar hann að dvelja nokkra daga í Kaupmannahöfn.
Tugir þúsunda fara yfir Eyrarsundsbrúna á hverjum degi, þar á meðal 8.600 manns sem fara á milli vinnu og heimilis í Kaupmannahöfn og Malmö. Samkvæmt nýju reglunum þurfa þeir sem taka lest á milli landanna tveggja að fara um Kastrup-flugvöll til þess að fara í gegnum landamæraeftirlit á brautarstöðinni þar áður en ferðinni er haldið áfram.
Íslendingar, sem ferðast milli landanna tveggja, þurfa eins og aðrir að framvísa vegabréfi til að komast leiðar sinnar. Ákvörðun Svía gengur þvert á samkomulag Norðurlandanna frá 1. júlí 1954 um afnám vegabréfaskyldu í ferðum á milli landanna. Danir hafa einnig tekið upp vegabréfaskoðun á landamærum Danmerkur og Þýskalands.