„Ég krefst skýringa strax“

AFP

Innanríkisráðherra Þýskalands, Thomas de Maizière, gagnrýnir harðlega viðbrögð lögreglu í Köln við kynferðisofbeldi gagnvart konum á nýársnótt í borginni.

„Lögreglan getur ekki starfað með þessum hætti,“ sagði Maizière í viðtali við ARD sjónvarpsstöðina. 

Lögreglan er harðlega gagnrýnd fyrir að hafa ekki brugðist hart við árásunum sem virðast hafa verið skipulagðar af stórum hóp ungra karla fyrir utan aðalbrautarstöð borgarinnar og dómkirkju borgarinnar.

Aðalbrautarstöðin í Köln
Aðalbrautarstöðin í Köln AFP

Að sögn lögreglu rýmdi hún torgið vegna ótta um að fólk gæti slasast vegna flugeldaskota og viðurkennir að árásirnar hafi verið gerðar án þess að lögreglan hafi gert sér grein fyrir hvað var að gerast. Í tilkynningu sem lögreglan í Köln sendi frá sér á nýársdag kemur fram að nóttin hafi verið tíðindalítil. 

„Það er ekki ásættanlegt að hægt var að rýma torgið og á sama tíma áttu árásirnar sér stað á sama stað þar sem lögreglumenn biðu eftir kvörtunum frá fórnarlömbunum áður en þeir gripu til aðgerða,“ segir Maizière. „Ég krefst skýringa strax,“ bætti hann við.

Ekki var greint frá árásunum, sem ná allt frá káfi í að minnsta kosti einnar nauðgunar fyrr en í gær þegar tilkynningar frá fórnarlömbum nálguðust 100. Í öllum tilvikum virðist sem það séu ungir karlar, margir þeirra voru drukknir, sem réðust á konurnar í skipulögðum hópum. 

Yfirvöld telja að allt að eitt þúsund manns geti tengst árásunum með beinum hætti. Allt bendir til þess að árásarmennirnir séu frá Norður-Afríku.

Hópur þýskra stjórnmálamanna hefur gripið á lofti fregnir af því að árásarmennirnir séu arabar eða frá Norður-Afríku og gagnrýna stefnu Angelu Merkel, kanslara, að taka á móti hundruð þúsunda flóttamanna frá Miðausturlöndum og víðar.

Innanríkisráðherrann segir að ljóst sé að það verði að komast að því hvort árásarmennirnir séu nýkomnir til Þýskalands eða hafi verið þar til langs tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert