Vetnissprengjan sem norður-kóresk stjórnvöld segjast hafa sprengt hefur verið fordæmd af bæði bandamönnum og andstæðingum þeirra. Kínversk stjórnvöld segjast algerlega andvíg tilraunum Norður-Kóreumanna með gereyðingarvopnið. Svo gæti farið að refsiaðgerðir gegn landinu verði hertar í kjölfarið.
Ekki hefur verið staðfest að um vetnissprengju hafi verið að ræða. Erlend ríki hafa reynt að að ráða í sannleiksgildi Norður-Kóreumanna þess efnis með því að greina stærð jarðskjálfta sem mældist við sprenginguna í nótt og að mæla geislavirkni í lofti.
Óháð því hvort að um vetnis- eða atómsprengju hafi verið að ræða hafa þjóðir heims fordæmt hernaðarbrölt alræðisstjórnarinnar í Pyongyang. Kínverjar eru helstu bandamenn hennar en stjórnvöld þar segjast andvíg tilraununum og að sendiherra Norður-Kóreu verði kallaður á teppið til „alvarlegra“ samræðna.
„Við hvetjum Alþýðulýðveldið Norður-Kóreu til að halda sig áfram við skuldbindingar sínar um kjarnorkuafvopnun og að hætta öllum aðgerðum sem gætu gert ástandið verra,“ sagði Hua Chunying, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins.
Eins og gefur að skilja hafa Suður-Kóreumenn brugðist ókvæða við sprengingunni. Park Geun-Hye, forseti landsins, kallar hana alvarlega ögrun en þjóðaröryggisráð þess kom saman til neyðarfundar í dag.
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, tók í sama streng og sagði tilraunir Norður-Kóreumanna brjóta klárlega gegn ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og grafa undan alþjóðlegu átaki til þess að stöðva útbreiðslu kjarnavopna. Öryggisráðið ætlar að koma saman til neyðarfundar síðar í dag.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), fordæmdi tilraunina sem hann sagði grafa undan öryggi, bæði á svæðinu og á alþjóðavísu.
Bandaríkjamenn, Rússar, Frakkar og Bretar hafa allir lýst yfir áhyggjum sínum af tilburðum Norður-Kóreumanna en þjóðirnar eiga allar fast sæti í öryggisráðinu. Matthew Rycroft, sendiherra Breta við Sameinuðu þjóðirnar, sagði í dag að unnið væri að drögum að ályktun um hertar refsiaðgerðir.
Fyrri tilraunir alræðisstjórnarinnar með kjarnavopn leiddu til refsiaðgerða af hálfu Sameinuðu þjóðanna árin 2006, 2009 og 2013.