Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, hefur sætt harðri gagnrýni í gær og í dag fyrir stefnu sína í málefnum útlendinga þar sem þeir sem eru á móti komu innflytjenda og flóttafólks til landsins hafa tengt þá við kynferðisofbeldi í Köln á nýársnótt.
Lögreglan í Köln hefur fengið yfir 100 tilkynningar frá konum sem hafa lagt fram kvörtun vegna árása, allt frá káfi til nauðgana, á nýársnótt. Um er að ræða ofbeldi framið af stórum hópi karla fyrir utan aðalbrautarstöð borgarinnar og dómkirkjuna í Köln.
Fórnarlömbin saka menn af arabískum eða norðurafrískum uppruna um ofbeldið og hefur þetta verið olía á eld þeirra sem telja Þjóðverja ekki færa um taka á móti þeim gríðarlega fjölda sem sótt hefur um hæli í landinu undanfarið ár.
Frétt mbl.is: 1,1 milljón sóttu um hæli
Yfirvöld segja aftur á móti að ekkert hafi verið staðfest um að árásarmennirnir séu hælisleitendur sem hafi komið til Þýskalands á árinu.
Gagnrýnendur frjálslyndrar stefnu Merkel í málefnum flóttafólks segja hins vegar að árásirnar í Köld sýni það að hún sé að leika sér að eldinum þar sem ekki liggi fyrir nein sérstök áætlun um hvernig þeir eigi að aðlagast, einkum og sér í lagi múslíma, að þýsku samfélagi.
Þjóðernisflokkurinn Alternative für Deutschland (AfD) sem vonast eftir því að ná fulltrúum á sambandsþing í þremur ríkjum í sveitarstjórnarkosningum í mars, segir árásirnar komnar til vegna óheftrar innflytjendastefnu stjórnvalda.
Frauke Petry, formaður AfD, segir að hér sjáist best hvernig óskipulögð hælis- og innflytjendastefna stjórnvalda hefur á daglegt líf Þjóðverja.
Seint í gærkvöldi komu 200-300 manns saman fyrir utan dómkirkjuna í Köln og kröfðust meiri virðingar í garð kvenna.
Ein kona í hópi mótmælenda bar skilti sem á stóð: „Frú Merkel hvað ertu að gera? Þetta er ógnvænlegt.“
„Ef hælisleitendur eða flóttamenn frömdu þessar árásir... þá verður snöggur endir bundinn á dvöl þeirra í Þýskalandi, segir Andreas Scheuer framkvæmdastjóri CSU, systurflokks Kristilegra demókrata (flokks Merkel) í Bæjaralandi, en hann hefur krafist þess að hún setji harðari reglur varðandi komu flóttafólks til landsins. Hann vill miða við að tekið verði á móti 200 þúsund hælisleitendum á ári.
Merkel mun ávarpa fund á vegum CSU í Bæjaralandi síðar í dag en Horst Seehofer, forsætisráðherra Bæjaralands í Þýskalandi og formaður CSU gagnrýndi hana harkalega fyrir stefnuna í málefnum flóttafólks nýverið.
Ræða framtíð Schengen
Yfirmaður flóttamannaáætlunar Evrópusambandsins, Dimitris Avramopoulos, heldur í dag neyðarfund með ráðherrum frá Svíþjóð, Danmörku og Þýskalandi, um framtíð Schengen landamærasamstarfsins en eftir að Svíar og Danir hertu landamæraeftirlit sitt í vikunni óttast margir að það geti markað endalok Schengen.
Merkel hringdi í gær í borgarstjórann í Köln, Henriette Reker, í gær og var myrk í máli. Að sögn Merkel verður brugðist hart við ofbeldinu og slíkt sé ekki liðið í Þýskalandi.
„Það verður að gera allt sem þarf til þess að finna eins marga af árásarmönnunum eins fljótt og auðið er. Þeir verða látnir sæta ábyrgð á gjörðum sínum burtséð frá bakgrunni þeirra,“ segir Merkel.
Að sögn vitna í Köln virðist sem hópur 20-30 ungra karla hafa umkringt fórnarlömbin, ráðist á þau og í einhverjum tilvikum rænt þau. Meðal þeirra sem urðu fyrir árás var óeinkennisklædd lögreglukona.
Lögreglustjórinn í Köln, Wolfgang Albers, segist gera ráð fyrir því að fleiri vitni muni gefa sig fram og segir ekki koma til greina að segja af sér vegna málsins.
Í Hamborg hefur lögreglunni borist 27 tilkynningar um svipaðar árásir á nýársnótt. Dómsmálaráðherra Þýskalands, Heiko Maas, varar við því að flóttamenn verði gerðir að blóraböggli vegna árásanna sem hann segir að hafi verið samhæfðar og skipulagðar. „Enginn ætti að nýta sér árásirnar til þess að ata flóttamenn auri sem hóp,“ segir Maas í viðtali við DPA fréttastofuna. „Jafnvel þó svo hælisleitendur séu meðal árásarmannanna þá er engin ástæða til þess að setja alla flóttamenn undir sama hatt grunsemda.“
Innanríkisráðherra Þýskalands, Thomas de Maiziére, hefur harðlega gagnrýnt lögregluna í Köln fyrir aðgerðarleysi og að hafa setið hjá en lögreglan rýmdi torgið sem umræðir á sama tíma og árásirnar voru byrjaðar. Var það gert af ótta við að einhver myndi slasa sig á flugeldum. Ráðherrann segir að þetta sé óásættanlegt að lögreglan hafi beðið eftir því að kvartanir bærust áður en gripið inn á meðan ofbeldið átti sér stað.
Reker borgarstjóri varð fyrir árás í október er hún var stungin í hálsinn vegna jákvæðrar afstöðu sinnar í garð flóttafólks. Hún heitir því að grípa til aukinna öryggisráðstafana einkum og sér í lagi áður en árleg kjötkveðjuhátíð hefst í borginni. Gríðarlegt fjölmenni er alltaf á götum úti að skemmta sér á hátíðinni. Albers segir að öryggismyndavélum verði fjölgað og eins verði lýsing bætt áður en hátíðin hefst 4. febrúar.