Börn og fullorðnir svelta í hel

Vannært barn í Madaya.
Vannært barn í Madaya. Skjáskot af YouTube

Sameinuðu þjóðirnar segja ríkisstjórn Sýrlands hafa samþykkt að hjálpargögn verði send til bæjarins Madaya í nágrenni Damaskus. Íbúar bæjarins segjast vera við það að svelta í hel vegna umsáturs hermanna sem eru hliðhollir Bashar al-Assad.

Enn er óljóst hversu mikið af hjálpargögnum bærinn fær. Bæði fullorðnir og börn hafa neyðst til að reita gras af jarðsprengjusvæðum sér til matar og borða laufblöð trjáa og soðið vatn með kryddi. Sem stendur kostar kíló af soðnum hrísgrjónum nú um 33 þúsund krónur í bænum.

Bærinn fékk síðast send hjálpargögn í október og segja bæjarbúar þau uppurin fyrir löngu. Skortur er á öllum vörum í bænum, hvort sem það er matur, mjólk fyrir ungbörn eða lyf og segja íbúar og fulltrúar Sameinuðu þjóðanna fólk þegar hafa dáið úr sulti.

Íbúar efast um að nýjustu sendingarnar muni endast lengi. Madaya er aðeins eitt af fjölmörgum dæmum um íbúabyggðir í Sýrlandi sem hafa þurft að þola viðlíka umsátur af völdum ríkisstjórnar Assad á þeim fimm árum sem stríðið hefur staðið yfir.

„Madaya er ekki á barmi mannúðarlegs stórslyss, þetta er nú þegar mannúðarlegt stórslys,“ sagði heilbrigðisstarfsmaður á sjúkrahúsi bæjarins í símaviðtali við The Guardian. „Útsýnið af götunni er ógnvekjandi, ógnvekjandi. Við vitum að fólk heldur að við séum að ýkja en trúið mér, þetta er verra en allar ýkjur.“

Fullorðnir íbúar bæjarins biðja um hjálp fyrir börnin sín sem …
Fullorðnir íbúar bæjarins biðja um hjálp fyrir börnin sín sem eru að svelta í hel. Skjáskot af YouTube

Kennari í bænum segir að íbúum hafi ekki borist neinar opinberar tilkynningar um að hjálpargögnin séu á leiðinni, þeir hafi aðeins heyrt af þeim í fréttunum.

„Við óttumst að það sé lygi svo við vorum glöð í fyrstu en nú erum við svolítið hrædd. Við vitum ekkert um hversu mikið af hjálpargögnum munu koma, hvort það verði mjólk fyrir börnin og aðrir mikilvægir hlutir.“

mbl.is varar við myndum í myndbandinu hér að neðan sem sýna sveltandi börn og fullorðna í Madaya.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert