Hvernig stefnuljós getur orðið að stórmáli

Sandra Bland
Sandra Bland AFP

Lögreglumaður í Texas sem kom að handtöku svartrar konu sem fannst síðar látin í fangaklefa sínum hefur verið ákærður fyrir meinsæri, segir í tilkynningu frá saksóknara.

Myndskeið úr eftirlitsmyndavél lögreglubifreiðar sýnir lögreglumanninn, Brian Encinia, sem er hvítur, halda á rafbyssu og kalla: „Ég mun grilla þig!“ eftir að hafa lent í illdeilum við Söndru Bland við umferðareftirlit í júlí í fyrra.

Myndskeiðinu var dreift á netinu eftir að fjölskylda Bland lýsti yfir vantrú sinni á niðurstöðu réttarmeinafræðings um að Sandra Bland hefði framið sjálfsvíg í fangaklefanum. Fjölskylda hennar segir að hún hafi verið mjög glöð og ánægð en hún var að byrja í nýrri vinnu og hafði enga ástæðu til þess að fremja sjálfsvíg þremur dögum eftir handtökuna.

Sakadómur féllst ekki á að þeir sem komu að handtöku Bland yrðu ákærðir fyrir að eiga aðild að dauða hennar. Hinsvegar gæti Encinia átt yfir höfði sér árs fangelsi verði hann fundinn sekur um að hafa logið í eiðsvarinni yfirlýsingu um handtöku hennar. Það tengist því hvernig hann lýsti ástæðunni fyrir því að hann tók hana út úr bifreiðinni, segir sérstakur saksóknari í málinu. 

Fjölskylda Bland hefur höfðað einkamál gegn yfirvöldum í þeirri von að fá þau dæmd til ábyrgðar á dauða Söndru Bland í fangaklefa. Fjölskyldan telur að það hafi aldrei neinn grundvöllur verið fyrir handtöku hennar í upphafi.

Sandra Bland tók virkan þátt í aðgerðum hreyfingar sem berst gegn ofbeldi lögreglu gagnvart svörtum í Bandaríkjunum, Black Lives Matter, en samtökin urðu til í kjölfar þess að hvítur lögreglumaður skaut Michael Brown í bænum Ferguson, Missouri, árið 2014.

Í myndskeiðinu heyrist þar sem þau Encinia deila eftir að hann stöðvaði för hennar fyrir að hafa ekki gefið stefnuljós þegar hún skipti um akrein í Waller-sýslu. Deilur þeirra stigmögnuðust eftir að hann skipaði henni að drepa í sígarettu og hún neitaði.

Encinia skipaði henni að koma út úr bílnum en hún neitaði og sagði að hann hefði ekki rétt til að krefjast þess og að hún myndi hringja í lögfræðing.

Bland steig loks út úr bílnum eftir að Encinia hrópar: Ég dreg þig út! og síðan heyrast þau rífast áfram á sama tíma og þau fara út fyrir sjónsvið myndavélarinnar sem er í mælaborði lögreglubílsins. „Þú ert að brjóta á mér úlnliðinn! Ertu til í að hætta,“ heyrist Bland öskra. 

„Um leið og þú snýrð þér undan þá ertu að streitast á móti handtöku,“ æpir Encinia á móti. 

Sandra Bland fannst látin í fangaklefa sínum 13. júlí en hún hafði hengt sig með plastpoka. Láta átti hana lausa gegn tryggingu en hún var kærð fyrir árás á lögreglumann. Skömmu fyrir andlátið hafði hún skilið eftir skilaboð í talhólfi vinar þar sem hún segist orðlaus í máli þessu. „Hvernig getur það að skipta um akrein án þess að gefa stefnuljós orðið að þessu öllu. Ég hef ekki hugmynd.“

Frétt mbl.is: Talaði róleg inn á talhólf vinar

Í myndskeiðinu hér að neðan hefjast deilur Söndru Bland og Brian Encinia á níundu mínútu.

 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert