Konur mótmæltu í Köln

Konur voru fjölmennastar í hópi mótmælenda við dómkirkjuna í Köln …
Konur voru fjölmennastar í hópi mótmælenda við dómkirkjuna í Köln í dag. AFP

Um 500 konur tóku þátt í mótmælum í Köln í Þýskalandi í dag þar sem þær létu í sér heyra vegna kynferðisofbeldis sem átti sér stað við aðalbrautarstöðina í borginni á nýársnótt.

Konurnar héldu á spjöldum þar sem á stóð „ekkert ofbeldi gegn konum“ og „nei þýðir nei og látið okkur í friði“. Mótmælin voru hávaðasöm því konurnar höfðu meðferðis potta sem þær börðu í sífellu og flautur sem þær blésu í. Mótmælin fóru fram við dómkirkjuna í Köln, skammt frá aðalbrautarstöðinni.

Lögreglan í Köln hefur fengið um 200 ábendingar um rán og árásir á konur á nýársnótt. Tvær nauðganir hafa verið tilkynntar. 

Sjónarvottar segja að svo virðist sem árásirnar hafi verið skipulagðar því hópar karlmanna mættu á svæðið og áreittu konurnar. 32 menn hefur verið handtekinn vegna málsins en lögreglan hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir að hafa ekki haft nægan viðbúnað á staðnum er mannfjöldinn fór að safnast saman.

Af þeim 32 sem hafa verið handteknir eru 22 hælisleitendur í Þýskalandi, m.a. frá Norður-Afríku. Hvatt er til þess að tryggja öryggi áfram í  landinu en einnig er varað við því að málið kunni að valda aukinni andúð í garð útlendinga. 

„Við viljum njóta öryggis áfram. Við erum á móti öllu ofbeldi gegn konum,“ segir tónlistarkonan Martina Schumeckers, 57 ára, sem skipulagði mótmælin. Hún segir það kröfu kvenna að þær geti gengið frjálsar og öruggar um Köln.

Einnig voru nokkrir karlmenn í mótmælendahópnum en hann samanstóð þó fyrst og fremst af konum.

Mótmælt við dómkirkjuna í Köln í dag.
Mótmælt við dómkirkjuna í Köln í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert