Læknir kýldi sjúkling til dauða

Læknirinn kýldi sjúklinginn í andlitið með þeim afleiðingum að hann …
Læknirinn kýldi sjúklinginn í andlitið með þeim afleiðingum að hann lést. Skjáskot af Youtube

Hafin er rannsókn á máli rússnesk læknis sem kýldi sjúkling svo harkalega að hann lést samstundis. Árásin átti sér stað í borginni Belgorod og náðist á myndskeið.

Málið hefur vakið spurningar um þöggun í heilbrigðiskerfinu en rannsókn á málinu hófst fyrst í dag mörgum dögum eftir að upptaka úr öryggismyndavélum var birt á netinu og í helstu fjölmiðlum landsins.

Í yfirlýsingu frá rannsóknarnefndinni segir að atvikið hafi átt sér stað þann 29. desember. Engar skýringar voru gefnar á því hvers vegna rannsókn er að hefjast fyrst núna. Í yfirlýsingunni kemur fram að læknirinn sé grunaður um vanrækslu og að hann gæti átt yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi. 

Á myndskeiðinu sést þegar læknirinn dregur sjúkling sinn af skoðunarborðinu og spyr hann: „Hvers vegna snertir þú hjúkrunarfræðinginn?“ Svo ýtir hann honum út um dyrnar. 

Þegar sjúklingurinn kemur aftur kýlir læknirinn hann einu höggi í andlitið svo hann fellur aftur fyrir sig.

Læknirinn heldur svo áfram í átökum við annan mann sem fylgdi sjúklingnum og það er ekki fyrr en einni mínútu síðar að sjúkraliðar taka eftir ástandi sjúklingsins og reyna að lífga hann við.

Þeir draga lík hans burtu og maður kemur inn til að þurrka upp blóð. 

Þeir sem rannsaka málið segja að læknirinn hafi slegið sjúklinginn í andlitið eftir að hann sparkaði í hjúkrunarfræðing a meðan aðgerð stóð.

Rússneskir fjölmiðlar segja að læknirinn heiti Ilya Zelendinov, sé 56 ára og skurðlæknir.

Mbl.is varar við myndskeiðinu af árásinni hér að neðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert