Guantanamó-fangabúðirnar óþarfar

Barack Obama í bandaríska þinghúsinu í gær.
Barack Obama í bandaríska þinghúsinu í gær. AFP

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, kom víða við í síðustu stefnuræðu sinni í gærkvöldi, hann varði þau málefni sem hann hefur barist fyrir í forsetatíð sinni og blæs á þær raddir sem halda því fram að efnahagur landsins sé á niðurleið. Meira fór fyrir arfleiðinni og framtíðinni heldur en nýjum stefnumálum fyrir komandi ár. „Í minni síðustu stefnuræðu í þessum þingsal þá vil ég ekki bara tala um næsta ár,“ sagði hann. „Ég vil leggja áherslu á framtíð okkar.“

Obama ræddi meðal annars um misskiptingu tekna og hvernig hægt sé að taka á því vandamáli. Hvernig nýta megi tæknina í baráttunni við loftlagsbreytingar og hvernig gæta megi að þjóðaröryggi Bandaríkjanna án þess að festast í átökum víðs fjarri heimahögum. 

Bandaríkjaforseti viðurkenndi að honum hafi mistekist að brúa bilið á milli ólíkra stjórnmálaviðhorfa og segir að ef eitthvað sé þá hafi bilið aukist enn frekar. Vísar hann þar til stöðunnar á Bandaríkjaþingi þar sem bilið milli repúblikana og demókrata breikkar stöðugt.

Hann varar við samfélagi þar sem aðeins mestu öfgaraddirnar ná athyglinni og telja flestir að þar eigi hann við Donald Trump, sem sækist eftir því að vera forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, en fáir fjölmiðlar sýna öðrum frambjóðendum meiri athygli en honum. 

Hann biður Bandaríkjaþing um að aðstoða sig við loka fangabúðunum við Guantanamóflóa á Kúbu enda séu þær kostnaðarsamar í rekstri og ónauðsynlegar. Þær gegni aðeins því starfi að safna nýliðum í hópi óvina ríkisins.

Að sögn Obama er Ríki íslams ekki bein ógn við Bandaríkin og það að halda því fram sé aðeins vatn á myllu þeirra sem eru óvinir ríkisins. Bandaríkjaher sé best þjálfaði og best rekni herafli í sögu heimsins og eigi ekki í vandræðum við að berjast gegn ógn af hálfu vígamanna.

Óttast ekki þriðju heimstyrjöldina

Hann segir enga ástæðu til þess að óttast þriðju heimstyrjöldina því hópur vígamanna á pallbílum og brenglaðar sálir sem skipuleggja voðaverk í íbúðum eða bílskúrum til þess að valda samborgurum sínum sem mestum skaða þarf að stöðva. „En þeir eru ekki ógn við tilveru okkar sem þjóðar.“

Bandaríkjaher leiðir alþjóðlegt hernaðarsamstarf sem beitir sér gegn Ríki íslams með loftáárásum á þeirra helstu vígi í Sýrlandi og Írak og koma einnig að þjálfun íraskra landgönguliða. Obama hefur ýjað að því að senda sérsveitir á vettvang til þess að aðstoða sérsveitir Sýrlendinga og Kúrda við að ná yfirráðum í Raqqa á nýjan leik.

Eins veitir leyniþjónusta Bandaríkjanna samherjum sínum við að fylgjast með áformum öfgasinna um að fremja hryðjuverk í Líbíu, Sómalíu, Jemen, Afganistan og í evrópskum borgum. En Obama ætlar ekki að fylgja í fótspor forvera síns í starfi, George W. Bush, með því að senda þúsundir bandarískra hermanna til Miðausturlanda og berjast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert