Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, mun næstkomandi þriðjudag hitta bandaríska starfsbróður sinn, John Kerry, á fundi í Zürich í Sviss til að ræða málefni Sýrlands og Úkraínu.
Fréttaveita AFP greinir frá því að ráðherrarnir hafi nýverið rætt saman í síma þar sem ákveðið var að þeir myndu hittast á einkafundi í Sviss í næstu viku. Utanríkisráðuneyti Rússlands staðfestir þetta.
Munu þeir, samkvæmt ráðuneyti utanríkismála í Rússlandi, halda áfram að „skoða leiðir til þess að binda endi á átökin í Sýrlandi og þá deilu sem uppi er vegna Úkraínu.“
John Kirby, talsmaður Kerry utanríkisráðherra, segir ráðamenn í Washington DC nú hafa áhyggjur af aðferðum Rússa þegar kemur að hernaðarátökum í Sýrlandi.
„Ráðherrann hefur áhyggjur, miklar áhyggjur, af árásum Rússa og liðsmanna stjórnarhersins á almenna borgara,“ hefur AFP eftir Kirby.