New York sendir Cruz fingurinn

Ef markmið Cruz var að vekja á sér athygli, þá …
Ef markmið Cruz var að vekja á sér athygli, þá tókst það.

Íbúar New York og stjórnmálamenn borgarinnar gripu til varna í dag eftir að Ted Cruz, eitt forsetaefna repúblikana, sakaði Donald Trump um að halda á lofti „New York-gildum“; vera fylgjandi fóstureyðingum og hjónaböndum samkynja para, og leggja áherslu á peninga og fjölmiðla.

Götublaðið Daily News var meðal þeirra sem létu ekki sitt eftir liggja og birti mynd af Frelsisstyttunni „gefa fingurinn“ undir fyrirsögninni „Drop Dead, Ted“.

Ummælin lét Cruz falla í viðtali við útvarpsþátt í New Hampshire en Trump var fljótur að svara fyrir sig og minnti m.a. á seiglu borgarbúa í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september 2001.

„New York er frábær staður, þar býr frábært fólk, elskulegt fólk, yndislegt fólk,“ sagði Trump. „Þegar ég sá World Trade Center falla, sá ég nokkuð sem enginn annar staður á jörðu hefði getað höndlað betur, mannlegar. Við endurbyggðum miðbæ Manhattan og allir í heiminum fylgdust með og allir í heiminum elskuðu New York og New York-búa.“

Hillary Clinton, eitt forsetaefna demókrata og fyrrverandi öldungadeildarþingmaður fyrir New York, tók undir með andstæðing sínum.

„Bara í þetta eina skipti þá hefur Trump rétt fyrir sér; íbúar New York meta dugnað, fjölbreytni, umburðarlyndi, seiglu og að skapa betra líf fyrir fjölskyldur okkar,“ tísti hún er myllumerkið NewYorkValues fór á flug.

Meðal annarra sem hafa látið í sér heyra og gagnrýnt Cruz eru Jim Smith, sem missti eiginkonu sína í árásunum 2001, en hún var lögreglukona. Bauð hann frambjóðandanum að heimsækja minnisvarðann um harmleikinn og læra um raunveruleg gildi borgarinnar.

„Ef hann hefði einhvern klassa myndi hann biðjast afsökunar,“ sagði ríkisstjórinn Andrew Como í samtali við sjónvarpsstöðina NY1. Borgarstjórinn Bill de Blasio sagði að hann hefði fyllst viðbjóði vegna ummæla Cruz, ekki síst vegna þess að Cruz hefði fengið mikinn fjárstuðning vegna framboðs síns í borginni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert