Margir Íslendingar hafa á síðustu árum flust búferlum til Noregs. En fólk er ekki bara að flytja til landsins, því árið 2015 fluttu 36.500 manns frá Noregi samkvæmt framreiknuðum tölum norsku hagstofunnar og hafa brottflutningar aldrei verið fleiri.
Gamla metið var árið 2013 þegar 35.716 manns fluttu frá landinu. Í norska fjölmiðlinum Nettavisen kemur fram að brottflutningar frá landinu séu nú fjölmennari en þeir voru árið 1882 þegar fólksflutningarnir til Norður-Ameríku stóðu sem hæst. Þá fluttust 28.804 frá landinu.
Samkvæmt hagstofunni eru þó mun fleiri sem flytja til landsins en frá því. Þá kemur einnig fram að tveir þriðju þeirra sem yfirgefa landið eru innflytjendur sem búið hafa stutt í landinu. Flestir þeirra eru á þrítugsaldri.
Fólksfjöldinn í Noregi þann 1. október í fyrra var 5,2 milljónir.