Hann stendur í glerkassa sem er fullur af ís. Ísinn nær honum upp að mitti. Hann skelfur úr kulda, enda á sundbuxunum einum saman, en hann hlær að áskoruninni. „Eins og er líður mér vel,“ segir Cui Deyi, sem gengur undir uppnefninu „Ísbjörninn“ í Kína.
Cui tilheyrir alþjóðlegum hóp þolraunamanna sem hefur það að atvinnu að reyna þol mannslíkamans í miklum kulda. „Ég get haldið áfram í að minnsta kosti klukkustund í viðbót,“ segir hann fullur sjálfsöryggis.
Sagan segir að Cui hafi þolað 75 mínútur í vatni nærri frostmarki undan ströndum Noregs árið 2011.
Handleggir Cui skjálfa í köldu loftinu en honum tekst engu að síður að sigra nokkrar umferðir af kínverskri skák. Hann er snar í hreyfingum og skellir höndunum niður á spilaborðið þegar hann hreyfir kubbana.
„Ég nota skák til að prófa getu mína til að þola kuldann og til að sjá hvort hann hefur áhrif á hugsanir mínar og hreyfingar,“ útskýrir Cui.
Cui á rætur sínar að rekja til Huangshan í Anhui og hóf að keppa í kuldaþolraunum fyrir um áratug, eftir að hafa synt í ám og vötnum á veturna. „Aðrir hófu að skjálfa eftir fimm minútur eða svo. En ég gat verið í hálftíma til klukkutíma án vandræða,“ segir hann.
„Því fór ég smám saman að hafa þetta að atvinnu.“
Vetrarsund, þar sem áhugasamir brjóta upp ís til að komast ofan í frostkalt vatn til heilsubótar, er vinsælt víða í Kína og nýtur meira að segja stuðnings frá ríkinu. Nokkur hundruð klúbbar tileinkaðir íþróttinni eru starfræktir í landinu, m.a. sá sem skipulagði áskorun Cui í Handan.
Umhverfis hann stendur hópur fólks, þ. á m. nokkrir embættismenn, en á nálægu skilti stendur: „Syndið frjáls í Yiquan-vatni og vinnið að kínverska draumnum“.
Áhugamenn um vetrarsund í Handan segja eigið þol lítilfjörlegt í samanburði við Ísbjörninn. „Það er ekki hægt að bera okkur saman við hann, hann er frábær. Venjulegt fólk getur bara fylgst með af virðingu,“ segir Wu Guangj, 50 ára.
Cui er ekki einni maðurinn í Kína sem keppir í þolraunum. Árið 2013 atti hann kappi við áskorandann Jin Songhao en þá voru báðir huldir ís upp að háls. Eftir 138 mínútur gafst keppinautur hans upp og síðan hefur Cui einnig lagt að velli áskorendur frá Rússlandi, að eigin sögn.
Á alþjóðlegum vettvangi er helsti keppinautur hans Hollendingurinn Wim Hof, sem er þekktur undir gælunafninu „Ísmaðurinn“. Hann setti heimsmet árið 2011 þegar hann kleif 7.400 metra á Everest á stuttbuxunum einum saman.
Hof hefur sagt að þarna sé ekki um að ræða sérstaka náðargjöf, heldur megi rekja getu hans til áratuga þjálfun í hugleiðslu og jóga.
Cui hefur skorað á Hollendinginn. „Hver sá er góður í heiminum; ég skal mæta honum, og sjáum hvor líkami þolir meira.“
Þegar hann gefst að lokum upp og er hjálpað upp úr boxinu, afhenda aðstoðarmenn hans honum hvítan slopp til að fara í. Þá reyna þeir að nudda blóðrásina af stað, áður en hann er fluttur á hótel.
Þar gæðir Cui sér á skál af núðlum og grænmetisbollum og segist æfa sig með því að sofa í ísbaði hálftíma á dag. „Þetta er ansi magnað, finnst þér ekki?“ segir hann um hæfileika sína.