Fimm manns hafa farist úr hungursneyð undanfarna viku í bænum Madaya í Sýrlandi þrátt fyrir að tvær neyðarsendingar með mat hafi komið með bílalestum til bæjarins.
Þetta kemur fram í skýrslu Sameinuðu þjóðanna.
Að sögn hjálparstarfsmanna hafa 32 farist úr hungursneyð í bænum síðastliðinn mánuð en þar hefur ríkt umsátursástand vegna borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi. Í síðustu viku var fluttur til Madaya matur fyrir 42 þúsund íbúa bæjarins en það virðist ekki hafa dugað til.
Tugir til viðbótar sem eru í bráðri lífshættu þurfa á læknisaðstoð að halda. Talið er að hjálparstarfsmenn Sameinuðu þjóðanna og sýrlensku mannúðarsamtakanna SARC hafi aðeins tekist að koma tíu manns undir læknishendur með því að ná þeim út úr bænum, að því er The Guardian greindi frá.
Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum höfðu þeir hjálparstarfsmenn sem komu til Madaya í síðustu viku fregnir af því að jarðsprengjum hefði verið komið þar fyrir frá því í september til að aftra fólki frá því að flýja. Þrátt fyrir það hafa margir haldið áfram að leitað matar í útjaðri bæjarins og sumir hafa misst útlimi vegna þessa.
Talið er að um 450 þúsund manns séu innlyksa í bæjum víða um Sýrland vegna umsátursástands.