Látinn 112 ára að aldri

Japaninn Yasutaro Koide, sem var elsti maður heims, er látinn 112 ára að aldri. Elsta manneskja heims, Susannah Mushatt Jones, er 116 ára gömul en ekki liggur fyrir á þessari stundu hvaða karl er nú elstur í heimi.

Koide, sem fæddist aðeins nokkrum mánuðum áður en Wright bræðrum tókst að fljúga í fyrsta skiptið, lést á sjúkrahúsi í borginni Nagoya þar sem hann bjó í mörg ár. Það var hjartabilun og lungnabólga sem dró hann til dauða. 

Koide var klæðskeri fæddur 13. mars 1903 í Fukui héraði, norðvestur af Tókýó. Það var í júlí í fyrra sem heimsmetabók Guiness skráði hann elsta karl í heimi er annar japanskur karl, sem var mánuði eldri, lést. 

Þegar Koide var spurður hver lykillinn væri að því að ná háum aldri sagði hann best að forðast það að vinna yfirvinnu og njóta lífsins með gleðina að leiðarljósi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert