Fyrrum varaforsetaefni Repúblikanaflokksins og fyrrum ríkisstjóri í Alaska, Sarah Palin, hefur gefið út að hún sé „stoltur“ stuðningsmaður forsetaframbjóðandans Donald Trump. Þar með er hún orðin stærsta nafnið í bandarískum stjórnmálum sem hefur lýst opinberlega yfir stuðningi við framboð Trump.
Palin bauð sig fram árið 2008 ásamt John McCain gegn Barack Obama. Þrátt fyrir að hafa sagt skilið við stjórnmálin og haslað sér völl í fjölmiðlum er hún enn áhrifarík rödd hjá íhaldssinnuðum Bandaríkjamönnum.
Gert er ráð fyrir að Palin muni stíga á svið með Trump á kosningafundi í Iowa fylki í kvöld og tilkynna stuðninginn formlega.
Trump hefur gefið út að stuðningur Palin sé áhrifamikill fyrir sig og að hún sé alvöru íhaldsmaður sem hafi sannað sig sem fjárhagslegan hægri mann og andstæðing fóstureyðinga. Þá trúi hún á minna ríkisvald sem ýti undir einkaframtakið.