Foreldrar slökkvi á símanum

Hjúkrunarfræðingurinn vill að foreldrarnir gefi barninu gaum.
Hjúkrunarfræðingurinn vill að foreldrarnir gefi barninu gaum. Ásdís Ásgeirsdóttir

Móðir heldur á nýfæddu barni sínu með öðrum handleggnum og símanum með hinni hendinni. Hún lítur yfir helstu samfélagsmiðlana, sendir skilaboð og deilir myndum. Þetta er algeng sjón á fæðingardeildum í Danmörku en Helle Andersen, hjúkrunarfræðingur á fæðingardeild í Nykøbing Falster, segir þetta vera ósið og hefur lagt til nýja reglu á deildinni.

„Ég hvet foreldrana til að slökkva á farsímanum í að minnsta kosti tvær klukkustundir á dag til að fá frið og ró, þ.e. fyrir þau sem geta ekki sleppt því að skoða símann þegar hann gefur frá sér hljóð,“ segir Andersen í samtali við danska ríkisútvarpið.

Hún segir að þörf foreldranna fyrir að skoða samfélagsmiðla geti vel þýtt að barnið þurfi að bíða lengur eftir máltíð. „Því þegar barnið er svangt, þá er það svangt og þá þýðir ekkert að reyna að láta það sofna aftur,“ segir hún.

Hjúkrunarfræðingurinn segir sérstaklega mikilvægt að hafa þetta í huga fyrst um sinn þegar barnið er að tengjast foreldrum sínum. Snerting barns og foreldra og augnsamband þeirra er mikilvægt og þar sem börnin sjá illa til að byrja með skiptir nándin sérstaklega miklu máli.

Tilfinningarof milli móður og barns? 

Ummæli Þorgríms Þráinssonar á Morgunvaktinni á Rás 1 nýlega vöktu töluverða athygli en þar vísaði hann til reynslu konu sem sinnir ungbarnaeftirliti.

Sagði hún frá tilfinningarofi milli móður og barns sem móðirin hefur á brjósti sökum þess að hún notar tímann við brjóstagjöfina til þess að vafra á Facebook í stað þess að ná augnsambandi við barnið. Þá rofni eitthvað. „Við þurfum að vanda okkur betur,“ sagði Þorgrímur.

Þór­dís Elva Þor­valds­dótt­ir rit­höf­und­ur vakti meðal annarra máls á þessu á Face­book-síðu sinni. 

„Þar sem [Þorgrím­ur] hef­ur ekki verið með barn á brjósti sjálf­ur þarf kannski að minna hann á að mörg börn eru með lokuð aug­un á meðan á þessu ferli stend­ur. Varla þurf­um við vökustaura á börn­in til að tryggja „órofna teng­ingu“.

Þá þurfa hvít­voðung­ar að fá brjóst á u.þ.b. tveggja tíma fresti fyrsta skeið ævi sinn­ar. Mæðrum er inn­rætt að barnið eigi heimt­ingu á óskiptri at­hygli þeirra, bæði lík­am­lega og til­finn­inga­lega. Þetta er erfitt ferli sem útheimt­ir oft blóð, svita og tár all­an sól­ar­hring­inn. Mæður þurfa allra síst á því að halda að vera guilt-trippaðar með svona hrút­skýr­ing­um,“ sagði Þór­dís Elva.

Frétt mbl.is: Hafði Þorgrímur rétt fyrir sér?

mbl.is ræddi við Hildi Sigurðardóttur, lektor í ljósmóðurfræðum við Háskóla Íslands, um málið.  

Sagði hún að langdvöl mæðra ungbarna á Facebook geti eflaust í einhverjum tilvikum gefið vísbendingu um takmarkaða tengslamyndun við barnið, einkum ef einnig er til staðar ákveðið áhuga­leysi gagn­vart barn­inu og umönn­un þess. Brjósta­gjöf­in geti þó tekið marg­ar klukku­stund­ir og því erfitt að gera kröf­ur til mæðra um að veita börn­um sín­um óskipta at­hygli, sagði Hildur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert