Mikill stormur er á leiðinni upp að austurströnd Bandaríkjanna og er búist við að honum fylgi mikil snjókoma, meðal annars í höfuðborginni Washington. Reiknað er með um 60 cm snjólagi innan fárra klukkustunda eftir að stormurinn skellur á í kvöld. Viðvörun um storminn, sem sagður er hugsanlega hafa lamandi áhrif á samgöngur, var send út í dag á svæðum þar sem samtals yfir 50 milljónir manna búa.
Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að ennfremur sé óttast að stormurinn leiði til rafmagnsleysis. Biðraðir hafi myndast við verslanir þar sem fólk hafi birgt sig upp af nauðsynjum. Versnandi veðurfar hafi þegar kostað mannslíf. Tveir ökumenn hafi látið lífið í Norður-Karólínu og einn í Tennessee. Þá hafi gangandi vegfarandi látist af slysförum í Maryland.
Lýst hefur verið yfir neyðarástandi í ríkjunum Maryland, Norður-Karólínu, Georgíu, Pensylvaníu, Virginíu og í höfuðborginni Washington og nærliggjandi svæðum. Almenningssamgöngur munu liggja niðri í Washington alla helgina. Skólum í ríkjunum var lokað í dag. Þá hafa flugfélög heimilað farþegum að breyta flugferðum sínum á meðan veðrið gengur yfir.
Borgarstjóri New York, Bill Blasio, hefur hvatt íbúa borgarinnar til þess að búa sig undir storminn. „Við erum að undirbúa okkur fyrir fyrsta stóra storminn þennan vetur. Ég vil að borgarbúar viti að við erum reiðubúin, stofnanir borgarinnar eru undirbúnar fyrir það sem er í vændum.“ Bandaríska veðurstofan segir að stormurinn gæti reynst mjög hættulegur.