„Getum tekið við fleiri með betri samvinnu“

Filippo Grandi sem stýrir flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna ræddi við BBC …
Filippo Grandi sem stýrir flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna ræddi við BBC í heimsókn sinni í flóttamannabúðir í Líbanon. AFP

Ítalinn Filippo Grandi, sem nýverið tók við stjórn flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, segir Evrópu geta tekið við mun fleiri flóttamönnum frá Sýrlandi ef þjóðirnar vinna betur saman. Þetta kemur fram í viðtali BBC við Grandi.

„Hinsvegar skiljum við vandamálið. Þetta er félagslegt og pólitískt vandamál sem er mjög alvarlegt,“ bætir Grandi við.

Evrópusambandið vinnur nú að áætlun sem á að sjá til þess að kostnaðurinn og álagið af flóttamannastraumnum dreifist betur um sambandið. Er talið að sambandið muni afnema regluna um að flóttamenn verði að sækja um hæli í fyrsta viðkomulandinu.

Ungverjar hafa verið hörðustu gagnrýnendur nýju stefnunnar. Þeir segja stóran hluta vandamálsins vera af þýskum meiði þar sem flestir þeir flóttamenn sem koma til Evrópu vilja setjast að í Þýskalandi.

Grandi hefur einnig hvatt Evrópusambandið til þess að styðja betur við bakið á þeim þjóðum sem fyrst taka við flóttamönnunum. 

Manuel Valls, forsætisráðherra Frakka, tjáði sig einnig um flóttamannavandann við BBC í vikunni. „Ef Evrópa getur ekki varið eigin landamæri, þá gæti sjálf hugmyndin um Evrópu verið í hættu,“ sagði Valls ómyrkur í máli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert