Stefan Lofven, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir að „hryllilegur glæpur“ hafi átt sér stað þegar kvenkyns starfsmaður á heimili fyrir unga hælisleitendur var stunginn til bana.
Lofven heimsótti staðinn, sem er í Molndal skammt frá Gautaborg, nokkrum klukkustundum eftir að glæpurinn átti sér stað. Þar dvelja hælisleitendur sem eru ekki í fylgd fullorðinna.
Hinn grunaði, sem er fimmtán ára hælisleitandi, hefur verið handtekinn fyrir morðið á konunni, sem var 22 ára.
Að sögn Lofven óttast margir að fleiri slíkar árásir muni eiga sér stað.
„Það eru margir í Svíþjóð sem óttast að fleiri svona mál muni koma upp, vegna þess að Svíþjóð tekur á móti svo mörgum börnum og ungmennum sem eru ein á ferð,“ sagði hann við sænska ríkisútvarpið, að því er BBC greindi frá.
Svíar tóku á móti rúmlega 150 þúsund flóttamönnum á síðasta ári. Landið er, ásamt Þýskalandi, vinsæll áfangastaður á meðal flóttamanna og annarra sem komast ólöglega inn í lönd Evrópusambandsins.
Samkvæmt tölum frá sænsku flóttamannastofnuninni tvöfaldaðist fjöldi hótana og ofbeldismála á heimilum fyrir hælisleitendur frá árinu 2014 til 2015.
Árið 2014 voru atvikin 148 talsins en í fyrra fóru þau upp í 322.
Eldur hefur einnig verið borinn að fjölda slíkra heimila. Á síðasta ári voru íkveikjurnar yfir tuttugu talsins.