Ung bresk kona sem er ákærð fyrir að hafa gengið til liðs við hryðjuverkasamtökin Rík íslams neitaði sök við réttarhöld í dag. Konan heitir Tareen Shakil og er 26 ára. Hún fór frá Bretlandi árið 2014 og tók ungan son sinn með sér til borgarinnar Raqqa sem er höfuðvígi Ríkis íslams í Sýrlandi. Nokkrum mánuðum síðar fór hún aftur til Bretlands og sagðist hafa „gert mistök“.
Shakil neitar því að hafa gengið til liðs við samtökin og sagði í dag að hún hefði einfaldlega viljað betra líf fyrir sig og son sinn og hélt að það yrði raunin í kalífadæminu.
Saksóknari í málinu, Sean Larkin, spurði hana endurtekið í dag um af hverju hún hafi fylgt fólki á Twitter sem hefur fagnað liðsmönnum hryðjuverkasamtakanna.
„Hvernig er ég ábyrgð fyrir þeirra gjörðum? Ég ber aðeins ábyrgð á mínum eigin,“ svaraði Shakil.
Hún var einnig spurð af hverju hún hefði endurbirt tíst á Twitter þar sem mátti sjá vers úr Kóraninum skreytt með myndum af hópi byssumanna. „Ef þú ert að halda því fram að vers úr Kóraninum ýti undir hryðjuverk eru allir múslímar hryðjuverkamenn,“ svaraði Shakil.
„Hvar eru skilaboðin þar sem ég stuðla að hryðjuverkum? Hvar eru skilaboðin þar sem vegsama hryðjuverk?“ spurði hún jafnframt.
Á einum tímapunkti virtist vera sem Larkin hafi verið kominn með nóg af spurningum Shakil og bað hana um að halda sig við það að svara spurningum en það væri hans starf að spyrja.
Shakil viðurkenndi þó að hún hafi sent frá sér skilaboð á samfélagsmiðlum þegar hún bjó í Raqqa sem gáfu til kynna að líf hennar væri gott í borginni. Hún sagðist hafa verið neydd til að senda þau skilaboð. Heldur hún því fram að henni hafi verið hótað lífláti.
Shakil hefur áður lýst því yfir að lifnaðarhættir fólks í Raqqa hefðu valdið henni vonbrigðum en hún og sonur hennar bjuggu þar í húsi ásamt öðrum ógiftum konum. Þau flúðu borgina í janúar á síðasta ári og komust þaðan til Tyrklands.
Shakil er eins og fyrr segir ákærð fyrir að hafa gengið til liðs við Ríki íslams en einnig fyrir að hafa hvatt fólk til hryðjuverka á samfélagsmiðlum.