Verða Grikkir reknir úr Schengen?

AFP

Mikill þrýstingur er á grísk stjórnvöld að taka gæslu á landamærum Grikklands að Tryklandi fastari tökum í ljósi straums flóttamanna og förufólks yfir landamærin en þau eru hluti af ytri mörkum Schengen-svæðisins. Hefur Grikkjum verið hótað að þeir gætu að öðrum kosti verið reknir úr samstarfinu samkvæmt frétt breska dagblaðsins Daly Telegraph og fleiri miðla.

Fram kemur á fréttavefnum Euobserver.com að innanríkisráðherrar ríkja Evrópusambandsins fundi í dag um stöðuna á Schengen-svæðinu en fyrir fundinum liggi meðal annars tillaga um að Grikkjum verði tímabundið vísað úr samstarfinu og að ríkjum þess verði heimilað að framlengja landamæraeftirlit gagnvart öðrum Schengen-ríkjum í allt að tvö ár.

Haft er eftir grískum ráðamönnum að hótanir um að reka Grikki úr Schengen-samstarfinu snúist um að kenna Grikkjum um það sem aflaga hefur farið. Benda þeir á að Evrópusambandið hafi ekki ákveðið með hvaða hætti eigi að taka á flóttamannavandanum. Meðal annars hvaða reglur eigi að gilda um komur fólks inn á Schengen-svæðið og um hælisumsóknir.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hins vegar lýst því yfir að engin áform séu uppi um að reka Grikkland úr Schengen-samstarfinu samkvæmt Euobserver.com. Talsmaður hennar sagði við blaðamenn í dag í tengslum við fund innanríkisráðherranna að sá möguleiki væri ekki fyrir hendi samkvæmt þeim reglum sem í gildi væru í þessum efnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert