Gæti smitast með kynmökum

AFP

Nú liggur fyrir grunur á því að Zika veiran geti smitast með kynmökum en áður var haldið að hún smitaðist aðeins með moskítóflugum. Anne Schuchat, varaforstjóri Smitvarnarstofu Bandaríkjanna, sagði frá því í dag að búið væri að tilkynna um eitt Zika-tilfelli þar sem sjúklingur gæti hafa smitast í gegnum kynmök.

„Í öðru tilfelli fannst Zika veiran í sæði manns um tveimur vikum eftir að hann fann fyrir einkennum veirunnar. Það bendir til þess að mögulegt sé að veiran smitist með kynmökum,“ sagði Schuchat eftir að hún var spurð út í fregnir bandarísks dagblaðs um að veiran gæti smitast með kynmökum. Hún bætti þó við að það væri ljóst að Zika veiran smitaðist aðallega með moskítóflugum. „Það er það sem við leggjum áherslu á núna.“

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur varað við veirunni og sagt hana dreifa sér „með sprengikrafti“. Að mati WHO gætu allt að fjórar milljónir manna smitast í Bandaríkjunum.

Í Brasilíu gengur nú yfir faraldur en talið er að rekja megistór­auk­inn fjölda barna sem fæðist með dverg­höfuð í Bras­il­íu við Zika-veiruna. Því hafa óléttar konur verið varaðar við því að fara til Brasilíu. Faraldurinn hófst í Brasilíu á síðasta ári og hafa tæplega 4.000 smitast.

Í nokkrum tilvikum hefur veiran fundist í fóstrum og börnum með fæðingagalla. Vísindamenn halda því fram að ef  að ólétt kona er bitin af mosíkótflugu sem sýkt er af Zika veirunni, sérstaklega  fyrstu þrjá mánuði meðgöngunnar, er líklegra að hún fæði barn með fæðingagalla.

The New York Times greindi frá því á mánudaginn að eina tilvikið þar sem Zika veiran fannst í sæði var í 44 ára gömlum manni frá Tahíti árið 2013. Veiran fannst í sæðinu eftir að hún var horfin úr blóði mannsins. Blaðið sagði einnig frá öðru máli frá árinu 2008 þegar að bandarískur líffræðingur veiktist af Zika-veirunni í Senegal. Maðurinn var þar að safna moskítóflugum fyrir rannsókn sína á malaríu. Maðurinn fékk útbrot og höfuðverki og fann fyrir mikilli þreytu viku eftir að hann kom aftur til Bandaríkjanna. Kona hans fékk svipuð einkenni nokkrum dögum síðar, eftir að þau stunduðu kynlíf.

Þau fóru í rannsóknir og reyndust hvorug vera með malaríu, breinbrunasótt eða gulu.

Einhverjum tíma síðar lagði samstarfsfélagi mannsins til að þau hefðu veikst af Zika veirunni. Blóðsýni úr hjónunum höfðu verið fryst og voru þau rannsökuð að nýju. Þá kom í  ljós að þau höfðu verið með Zika-veiruna og að konan hefði smitast af eiginmanni sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert