Í kvöld fara fram kappræður frambjóðenda í forvali repúblikana fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Einn áberandi frambjóðandi, Donald Trump, verður ekki á staðnum.
Trump, sem er með mesta fylgið af frambjóðendunum mun halda fjöldafund til styrktar fyrrverandi hermanna á sama tíma sem gæti dregið athyglina frá kappræðunum. Aðeins eru nokkrir dagar í fyrstu forkosningarnar, sem fara fram í Iowa. Trump ákvað að taka ekki þátt í kappræðunum eftir að Fox News hélt því til streitu að fréttakonan Megyn Kelly myndi stjórna kappræðunum. Trump telur að Kelly sé hlutdræg gegn honum.
Litið er á forkosningarnar í Iowa sem fyrsta próf frambjóðendanna. Kosið verður í öllum ríkjum Bandaríkjana og eru síðustu forkosningarnar í júní.
Kelly stjórnaði fyrstu sjónvarpskappræðum frambjóðenda repúblikana í ágúst og spurði Trump ýmissa krefjandi spurninga. Eftir kappræðurnar gaf Trump í skyn að Kelly hafi verið ósanngjörn við hann vegna þess að hún væri á blæðingum.
„Hún kemur út og hún byrjar að spyrja mig alls kyns fáránlegra spurninga. Maður gat séð að blóð kom út um augun á henni, blóð kom út úr einhverju á henni,“ sagði Trump í viðtali við CNN í ágúst.