Torséð orrustuþota sýnd í Japan

Varnarmálaráðuneyti Japans hefur svipt hulunni af nýrri torséðri orrustuþotu sem að líkindum verður tekin í notkun á næstu misserum. Þótt þotan, sem kallast X-2, sé máluð í fremur áberandi lit eiga radartæki erfitt með að greina hana á flugi.

Orrustuþotan er framleidd af fyrirtækinu Mitsubishi Heavy Industries og er henni ætlað að taka við af eldri tegundum flugvéla japanska flughersins. Þotan er sögð svipa til hinnar bandarísku F-22 Raptor, sem framleidd er af Lockheed Martin vestanhafs.

Talið er að japanska varnarmálaráðuneytið hafi eytt um 440 milljónum Bandaríkjadala í hönnun vélarinnar, en fyrsta tilraunaflug fer fram í næsta mánuði.

Myndbandið sem fylgir fréttinni var tekið upp á flugvellinum Nagoya í Japan er þotan var fyrst sýnd almenningi í dag. Gangi prófanir sem skyldi verður X-2 tekin í notkun hersins að þeim loknum. Kemst Japan þá í hóp þeirra fáu ríkja sem búa yfir torséðum orrustuflugvélum, en í dag eiga hersveitir Bandaríkjanna, Rússlands og Kína slíkar vélar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert