Sextán fórust úr hungursneyð

Starfsmaður UNICEF mælir handlegg barns í bænum Madaya.
Starfsmaður UNICEF mælir handlegg barns í bænum Madaya. AFP

Að minnsta kosti sextán manns til viðbótar hafa farist úr hungursneyð í bænum Madaya á Sýrlandi síðan bílalest með neyðargögn kom til bæjarins fyrr í mánuðinum. Þetta segja samtökin Læknar án landamæra.

Tugir íbúa bæjarins eru jafnframt í lífshættu vegna vannæringar.

Þar með hafa 46 manns farist úr hungursneyð í Madaya síðan í desember, samkvæmt samtökunum.

„Samtökin hafa fengið staðfestar fregnir um 46 dauðsföll vegna hungursneyðar síðan 1. desember,“ sagði í yfirlýsingu Lækna án landamæra. „Hin raunverulega tala er alveg örugglega hærri því samtökin hafa heyrt af því að fólk hafi dáið  á heimilum sínum.“

Umsátursástand hefur ríkt í Madaya.
Umsátursástand hefur ríkt í Madaya. AFP

Umsátursástand hefur ríkt í Madaya. Ástandið þar hefur verið til umræðu í friðarviðræðum vegna styrjaldarinnar í Sýrlandi sem hófust á föstudaginn.

Stjórnarandstæðingar í Sýrlandi vilja að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna krefjist þess að umsátri ljúki víðsvegar um landið áður en nýjar friðarviðræður geta hafist.

Sameinuðu þjóðirnar telja að um 486 þúsund Sýrlendingar búi við umsátursástand, annað hvort af völdum ríkisstjórnarinnar, uppreisnarmanna eða Ríkis íslams.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert