Afmælisboð fimmtán ára unglings varð að blóðugri martröð á föstudag er ellefu manns voru skotnir til bana í Suður-Mexíkó. Greint var opinberlega frá blóðbaðinu í gærkvöldi.
Um var að ræða veislu þar sem fullorðinsárunum er fagnað, „quinceanera“, í Guerrero ríki, skammt frá ríkjamörkum Michocan þar sem glæpir tengdir eiturlyfjahringjum eru nánast daglegt brauð, þar á meðal morð.
Að sögn ríkisstjóra Guerrero, Hector Astudillo, kom upp „vandamál“ í veislunni og samkvæmt upplýsingum sem hann hefur undir höndum voru ellefu drepnir í veislunni. Bætti hann litlu við þær upplýsingar á blaðamannafundi í gærkvöldi.
Líkt og Michoacan þá er Guerrero eitt fátækasta ríki Mexíkó og þar hefur glæpum tengdum eiturlyfjum fjölgað mjög undanfarið, þar á meðal morðum.
Það var í suðurhluta Guerrero sem 43 kennaranemar hurfu í september 2014 eftir að hafa orðið fyrir árás af hálfu lögreglu sem síðar lét nemendurna í hendur eiturlyfjahrings sem myrti hópinn.