Forkosningar demókrata og repúblikana hefjast í dag í Iowa-ríki þar sem flokksbundnir geta valið forsetaefni síns flokks. Iowa-ríki er lítið og ekki fjölmennt, en ríkið hefur sögulega verið ákaflega mikilvægt í forkosningum í Bandaríkjunum. Góður árangur getur veitt meðbyr fyrir forkosningarnar 1. mars, á hinum svokallaða „stóra þriðjudegi“, þegar gengið er til kosninga í fjölmörgum ríkjum samtímis.
Hjá repúblikönum mælist milljarðamæringurinn Donald Trump með mest fylgi í Iowa og á eftir honum kemur lögmaðurinn og öldungadeildarþingmaðurinn Ted Cruz frá Texas. Tæplega 60% kjósenda í Iowa eru evangelísk en fyrir fjórum árum vann hinn trúrækni frambjóðandi Rick Santorum forkosningu repúblikana í ríkinu. Trump reynir að höfða til evangelískra kjósenda og setti því myndband af sér á Facebook haldandi á biblíu sem móðir hans hafði gefið honum.
Hjá demókrötum stendur slagurinn á milli Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra, og Bernies Sanders, öldungadeildarþingmanns frá Vermont. Clinton mælist með örlítið meira fylgi í nýjustu könnunum, þremur próentum meira en Sanders. Sanders hefur þó haft mikinn meðbyr síðustu vikur og mælist mun betur hjá ungu fólki en Clinton, sem treystir á stuðning hjá hefðbundnum kjósendum í forkosningum demókrata. Hún tapaði í Iowa árið 2008 þar sem sem Barack Obama, núverandi forseti Bandaríkjanna, fór með sigur af hólmi.