Stál í stál í friðarviðræðum

Mohammed Alloush heldur á mynd af dreng sem hann sagði …
Mohammed Alloush heldur á mynd af dreng sem hann sagði hafa særst alvarlega í loftárásum Rússa. AFP

Helsti samningamaður sýrlensku stjórnarandstöðunnar sagðist í dag ekki bjartsýnn á að samningaviðræðurnar sem nú standa yfir í Genf skiluðu árangri. Mohammed Alloush, einn af leiðtogum uppreisnarhópsins Army of Islam, sagði að þeir sem þrýstu á um að mynduð yrði samsteypustjórn stjórnarandstæðinga og stjórnarmeðlima væru haldnir hugarórum.

„Hver sá sem vill að við myndum stjórn með þessum glæpamönnum sem myrða börn lifir í blekkingu,“ sagði hann við blaðamenn áður en hann hélt inn á fund samninganefndar stjórnarandstæðinga (HNC).

Nefndin fundaði í morgun um næstu skref, í framhaldi af stífum fundarhöldum í gærkvöldi. Spurður að því hvað væri á dagskránni í dag sýndi Alloush mynd af ungum dreng sem hann sagði að hefði særst alvarlega í loftárásum Rússa.

„Vandamálið er ekki de Mistura,“ sagði Alloush og á þar við sérlegan sendifulltrúa Sameinuðu þjóðanna í málefnum Sýrlands. „Vandamálið liggur hjá glæpsamlegum stjórnvöldum sem stráfella börn og hjá Rússlandi sem stillir sér alltaf upp með glæpamönnum.“

Í yfirlýsingu var haft eftir Alloush að HNC væri umhugað um að ná pólitískri lendingu í málinu en pólitísk lausn væri hins vegar ekki mikilsverðari en „blóð sýrlensku þjóðarinnar“.

Alloush sakaði stjórnvöld í Sýrlandi um að grafa undan friðarviðræðum með því að samþykkja ekki aðgerðir í mannúðarmálum en sýrlenska stjórnin, og stjórnvöld í Rússlandi, segja Alloush og liðsfélaga hans hryðjuverkamenn.

Abu Hammam, leiðtogi Jaish al-Islam. Stjórnvöld í Sýrlandi og Rússlandi …
Abu Hammam, leiðtogi Jaish al-Islam. Stjórnvöld í Sýrlandi og Rússlandi segja Hammam, Alloush og liðsfélaga þeirra hryðjuverkamenn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert