Ástandið er skelfilegt

Tugir þúsunda Sýrlendinga hafa í morgun streymt að landamærum Tyrklands vegna harðandi átaka í Aleppo og nágrenni. Rússar gerðu loftárásir á borgina í gær sem kostuðu yfir 20 manns lífið en Aleppo er á valdi uppreisnarmanna. Það stendur vart steinn yfir steini í Aleppo eftir tæplega fimm ára borgarastyrjöld.

Forsætisráðherra Tyrklands,  Ahmet Davutoglu, sagði í gær á ráðstefnu í Lundúnum að um 70 þúsund Sýrlendingar séu á flótta að landamærum Tyrklands en talið er að 300 þúsund manns hafi lokast inni í Aleppo eftir að stjórnarherinn, með aðstoð Rússa, lokaði helstum leiðum inn í borgina.  Leiðtogar ríkja sem sitja ráðstefnuna í Lundúnum hafa heitið 10 milljörðum Bandaríkjadala í neyðaraðstoð til Sýrlendinga.

AFP

Öryggisráðið kallað saman í dag

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun funda í dag með Staffan de Mistura, sérstökum sáttasemjara Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandsdeilunni, vegna stöðu mála í Sýrlandi en friðarviðræðum stríðandi fylkinga hefur verið frestað til 25. febrúar.

„Ástandið norður af Aleppo er skelfilegt,“ segir Maamoun al-Khateeb, aktívisti og blaðamaður frá Marea þorpinu, skammt frá Aleppo.

„Sótt er að íbúunum úr þremur áttum og það er aðeins ein leið fær í átt að tyrknesku yfirráðasvæði,“ segir hann í viðtali við AFP fréttastofuna. Að sögn al-Khateeb sækir stjórnarherinn úr suðri, Ríki íslams úr austri og her Kúrda úr vestri.

AFP

Spjótin beinast að Rússum og um leið Tyrkjum

Stjórnmálasamband Tyrkja og Rússa virðist einnig versna dag frá degi og saka stjórnvöld í Moskvu stjórnvöld í Ankara um að undirbúa innrás í Sýrland. Segja Rússar að tyrkneskir hermenn og hergögn séu komin að landamærum Sýrlands.  

Aðeins nokkrum klukkustundum áður en Rússar beindu ásökunum sínum að Tyrkjum hafi Davutoglu sakað stuðningsmenn Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, þar á meðal Rússa, um að fremja stríðsglæpi í Sýrlandi.

Að minnsta kosti 21 almennur borgari, þar af þrjú börn, féll í loftárásum rússneska hersins á Aleppo í gær samkvæmt upplýsingum frá mannréttindasamtökunum  Syrian Observatory for Human Rights. Vesturveldin saka sýrlensku ríkisstjórnina um að hafa varpað tundurskeyti inn í friðarviðræðurnar með hernaði sínum og krefjast stjórnvöld í Washinton þess að rússnesk stjórnvöld hætti árásum sínum í Sýrlandi en Rússar styðja Assad.

AFP

Eftir að fréttir bárust af loftárásum Rússa á Aleppo í gær hringdi John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna í starfsbróður sinn í Moskvu, Sergei Lavrov og varaði hann við afleiðingunum ef Rússar hættu ekki árásum gegn stjórnarandstæðingum í Sýrlandi.

Á sama tíma bíða Sádar, sem styðja stjórnarandstöðuna í Sýrlandi, átekta en þeir segjast reiðubúnir í landhernað ásamt Bandaríkjaher og bandamönnum gegn Ríki íslams í Sýrlandi. Þetta staðfestir yfirmaður hers Sádi-Arabíu, Ahmed al-Assiri, í viðtali við AFP fréttastofuna.

AFP



Stríðið hefur kostað 35 milljarða Bandaríkjadala og 260 þúsund líf

Yfir 260 þúsund manns hafa dáið síðan átökin hófust í Sýrlandi í mars 2011 og helmingur landsmanna hefur verið neyddur til þess að yfirgefa heimili sín. Hryðjuverkasamtök eins og Ríki íslams hafa nýtt sér upplausnarástandið í landinu og náð stórum landsvæðum á sitt vald.

Alþjóðabankinn seti frá sér mat í gær á því hvað stríðið hafi kostað Sýrland og nágrannaríkin, það er Tyrkland, Líbanon, Jórdaníu, Írak og Egyptaland. Talan er sláandi eða 35 milljarðar Bandaríkjadala. Ef horft er aftur til ársins 2007 þá jafngildir þetta allri landsframleiðslu Sýrlands það ár. 

Aleppo var áður helsta viðskiptaborg Sýrlands en allt frá miðju ári 2012 hefur stjórnarandstaðan ráðið ríkjum í austri og stjórnin í vestri. 

Á miðvikudag var helsta leið stjórnarandstöðunnar til Tyrklands rofin þegar stjórnarherinn braut á bak aftur herkví stjórnarandstæðinga í tveimur bæjum, Nubol og Zahraa, þar sem flestir íbúanna eru sjíta-múslímar. Um leið náði herinn völdum yfir leiðinni til Tyrklands. Hernum var ákaft fagnað af bæjarbúum en annars staðar á þessum slóðum tóku tugir þúsunda sig upp og lögðu af stað á flótta.

AFP

Davutoglu segir að 60-70 þúsund manns séu á leiðinni í átt að landamærunum á meðan 10 þúsund manns bíði við landamærin. Observatory áætlar að tæplega 40 þúsund manns hafi þegar flúið og margir þeirra séu komnir að landamærunum.

Frétt BBC

AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert