Hugsanlegt er að hinu goðsagnakennda farþegaskipi SS United States verði bjargað frá því að verða að brotajárni og fari ennfremur aftur í siglingar, en bandaríska skipafélagið Crystal Cruises hefur í hyggju að festa kaup á skipinu og gera það út á sínum vegum.
Frétt mbl.is: Goðsagnakennt skip í brotajárn?
Fram kemur í frétt AFP að Crystal Cruises hafi gert kauptilboð í SS United States en greint var frá því á fimmtudaginn. Verði endanlega af kaupunum hyggst skipafélagið gera skipið upp fyrir 700-800 milljónir dollara. Haft er eftir Edie Rodriguez, framkvæmdastjóra Crystal Cruises, að um mikla áskorun sé að ræða sem snúist um eina af táknmyndum Bandaríkjanna.
Farþegaskipið SS United States var á sínum tíma hraðskreiðasta og íburðarmesta skip sinnar tegundar í heiminum og gat flutt 2000 farþega. Skipið fór í jómfrúarferð sína yfir Atlantshafið 3. júlí 1952 og var þrjá daga, tíu klukkustundir og 40 mínútur á leiðinni. Metið stendur enn. Skipið var hins vegar tekið úr notkun árið 1969 vegna vaxandi vinsælda farþegaflugs.
Frá því að SS United States hætti farþegasiglingum hefur það skipt nokkrum sinnum um eigendur sem hafa haft uppi ýmsar áætlanir um hvernig mætti nýta það. Meðal annars stóð til að gera það að spilavíti, skemmtiferðaskipi og sjúkraskipi en ekkert af því gekk eftir. Fyrir fimm árum keyptu frjáls félagasamtök í þeim tilgangi að tryggja að það yrði varðveitt.
Samtökin vöruðu hins vegar við því að SS United States myndi enda sem brotajárn ef fjárfestar kæmu ekki að verkefninu. Bent var á að það kostaði 60 þúsund dollara að hafa skipið í Delaware-ánni við Fíladelfíu-borg í Bandaríkjunum. Haft er eftir Rodriguez að ef endanlega verði af kaupunum sé stefnt að því að skipið hefji farþegasiglingar á ný árið 2018.
Hugmyndin er að farþegaskipið haldi að mestu útliti sínu líkt og rauðum reykháfunum og gönguleiðunum meðfram borðstokkum þess. Hins vegar verða miklar breytingar gerðar á því að innan. Til stendur að boðið verði upp á 400 lúxussvítur fyrir 800 farþega. Haft er eftir Susan Gibbs, talsmanni núverandi eigenda, að hún sé sátt við áform Crystal Cruises.
„Við teljum að þetta sé besta leiðin til þess að bjarga skipinu.“