Sangin sögð riða til falls

Afganskur lögreglumaður í Helmand héraði.
Afganskur lögreglumaður í Helmand héraði. AFP

Herforingi afganska hersins í Sangin í Helmand-héraði í Afganistan sagði breska ríkisútvarpinu BBC að borgin væri nær alveg undir valdi Talibana og stjórnarherinn héldi aðeins eftir  litlum skika. Hann segir vistir hersins á þrotum og tímaspursmál hvenær Talibanar nái fullu valdi í borginni.

Talibanar hafa haft mikil umsvif í Helmand-héraði undanfarið og í desember bárust fregnir um að þeir stjórnuðu í raun meirihluta þess. Afganski herinn sendi liðsauka á staðinn en það virðist ekki hafa dugað ef marka má heimildamann BBC.

Enginn liðsauki hefur borist herliðinu í Sangin dögum saman og vistir þess eru á þrotum. Varðstöðvar hersins sæta tíðum árásum og mannfallið er stöðugt. Bækistöð kölluð „Sahra Yak“ féll í vikunni. Átta hermenn féllu, níu voru teknir til fanga og vistir og vopn stöðvarinnar féllu í hendur Talibana. „Tvær aðrar bækistöðvar sæta sömu ógn. Ef þeim berst ekki nægur stuðningur hljóta þær sömu örlög,“ sagði herforinginn.

Hann segir yfirmenn hersins vel meðvitaða um stöðuna í héraðinu en alþjóðlegt herlið hefur dregist inn í baráttuna um Helmand á ný undanfarið. Bandarískur landgönguliði féll og tveir særðust þar í síðasta mánuði þar sem þeir börðust við hlið afganskra hermanna.

Heimildamaðurinn segist vel meðvitaður um að það að tjá sig um þetta við fjölmiðla sé glæpur fyrir mann í hans stöðu en hann sé til þess neyddur, staðan sé það alvarleg. Vararíkisstjóri Helmand-héraðs var rekinn nýverið fyrir svipaðar sakir. Hann birti opið bréf sitt til forseta landsins á Facebook þar sem hann kvartaði yfir svipuðum aðstæðum og nú í Sangin. Herinn og lögreglan væru umkringd Talibönum og birgðir þeirra væru á þrotum á meðan ríkisstjórnin sæti hjá.

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert